Erlent

Segir liðsflutninga Bandaríkjanna ógna friði í heiminum

Kjartan Kjartansson skrifar
Zarif, utanríkisráðherra Írans.
Zarif, utanríkisráðherra Írans. Vísir/EPA
Utanríkisráðherra Írans segir að ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að senda fleiri hermenn til Miðausturlanda til að bregðast við meintri ógn af Íran sé „gríðarlega hættulegt“ fyrir frið í heiminum. Spenna á milli stjórnvalda í Washington og Teheran hefur farið vaxandi undanfarnar vikur.

Um 1.500 manna liðsauki verður sendur til Miðausturlanda og segja bandarísk stjórnvöld að það verði gert til að treysta varnir gegn Írönum. Þau sakar íranska byltingarvörðinn um að hafa staðið að baki árásum á olíuflutningaskip fyrr í þessum mánuði.

„Aukinn mannafli Bandaríkjanna í okkar heimshluta er gríðarlega hættulegur og ógnar alþjóðlegum friði og öryggi og taka ætti á þessu,“ segir Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans.

Zarif sakar Bandaríkjastjórn um að búa til ásakanir til að réttlæta óvinveitta stefnu og auka spennu við Persaflóa, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Donald Trump Bandaríkjaforseti setti íranska byltingarvörðinn á lista yfir hryðjuverkasamtök fyrr á þessu ári. Í gær tilkynnti ríkisstjórn hans um að hún hefði lýst yfir neyðarástandi vegna spennunnar í samskiptum við Íran. Neyðarástandið notar hún til að réttlæta að selja Sádum og fleiri arabaríkjum vopn fyrir fleiri milljarða dollara án þess að Bandaríkjaþing fái nokkuð um það að segja.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×