Erlent

Fjórir skotnir til bana á vegahóteli í Ástralíu

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumenn á vettvangi skotárásarinnar í Darwin.
Lögreglumenn á vettvangi skotárásarinnar í Darwin. Vísir/EPA
Lögreglan í Ástralíu hefur handtekið karlmann sem skaut fjóra til bana á vegahóteli í bænum Darwin í norðanverðu landinu í dag. Vitni segja að maðurinn hafi hleypt af skotum í nokkrum herbergjum áður en hann flúði vettvang.

Árásin átti sér stað klukkan 18:00 að staðartíma, klukkan 8:30 að íslenskum tíma. Lögreglan hafði hendur í hári morðingjans um klukkustund síðar, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Scott Morrison, forsætisráðherra, segir að árásin hafi ekki verið hryðjuverk.

Auk þeirra sem létust eru tveir sagðir sárir. Árásarmaðurinn er sagður hafa verið vopnaðir haglabyssu og heyrðu vitni allt að tuttugu skothvelli.

Skotárásir af þessu tagi hafa verið fátíðar eftir að vopnalöggjöf Ástralíu var hert árið 1996. Það var gert í kjölfar mannskæðustu skotárásar í sögu landsins þegar vopnaður maður myrti 35 manns í Port Arthur í Tasmaníu.

Versta fjöldamorðið með skotvopni síðan var framið í maí í fyrra þegar sjö einstaklingar úr sömu fjölskyldu fundust látnir á sveitabæ í vesturhluta landsins. Á meðal þeirra látnu voru fjögur börn. Svo virtist sem að afi barnanna hefði skotið fjölskyldu sína til bana og svo svipt sig lífi.


Tengdar fréttir

Mannskæðasta skotárás í 22 ár

Sjö einstaklingar fundust látnir á sveitabæ í vesturhluta Ástralíu í gærkvöld. Fjórir þeirra voru á barnsaldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×