Erlent

Loftslagsmarkmið líklega brostið með núverandi orkuverum

Kjartan Kjartansson skrifar
Kolaorkuver eru verstu losendur gróðurhúsalofttegunda í heiminu. Víða er enn verið að reisa ný kolaver.
Kolaorkuver eru verstu losendur gróðurhúsalofttegunda í heiminu. Víða er enn verið að reisa ný kolaver. Vísir/EPA
Losun gróðurhúsalofttegunda frá þeim orkuverum, verksmiðjum, byggingum og bílum sem nú eru í notkun er nægilega mikil til að hnattræn hlýnun verði meiri en þær 1,5 gráður sem kveðið er á um í Parísarsamkomulaginu. Með þeim áætlun sem liggja fyrir um frekari kolaorkuver og innviði á losunin eftir að stóraukast.

Niðurstaða nýrrar rannsóknar sem birtist í vísindaritinu Nature er að haldi menn áfram að nýta kolefnislosandi innviði sem þegar eru til staðar út líftíma þeirra eigi losun gróðurhúsalofttegunda sem valda hnattrænni hlýnun eftir að nema meira en 650 milljörðum tonna. Það er langt umfram það magn kolefnis sem vísindamenn telja að þurfi til að valda hlýnun upp á 1,5 gráður miðað við tímabilið fyrir iðnbyltinguna.

Þegar litið er til þeirra áforma sem eru uppi um frekari kolaorkuver og annan losandi iðnað gæti losunin aukist um tvö hundruð milljarða tonna til viðbótar. Washington Post segir að framkvæmdir við sum þessara verkefna séu þegar hafnar.

Kolefnisbókhaldið gæti sprungið á næstu 10-14 árum

Í Parísarsamkomulaginu hétu nær öll ríki heims því að draga úr losun með það að markmiði að halda hlýnun á þessari öld innan við tvær gráður. Fyrir tilstilli Kyrrahafseyríkja sem eru að sökkva í sæ var samþykkt að stefna einnig að því að takmarka hlýnunina við 1,5 gráður.

„Kolefnisbókhald upp á 1,5°C leyfir enga frekari losandi innviði og krefst verulegra breytinga á líftíma eða rekstri orkuinnviða sem þegar eru til staðar,“ segir í niðurstöðum rannsóknarinnar sem vísindamenn frá Bandaríkjunum og Kína stóðu að.

Hugtakið kolefnisbókhald hefur verið notað yfir hversu mikil hlýnun hlýst af losun gróðurhúsalofttegunda. Mat á því hversu mikið menn geta losað til viðbótar áður en farið verður fram yfir markmið Parísarsamkomulagsins hafa verið nokkuð á reiki. Kenningar eru um að ef mannkynið losar á bilinu 420 til 580 milljarða tonna af koltvísýringi verði um 50-66% líkur á að hnattræn hlýnun haldist innan við 1,5 gráður.

Miðað við núverandi losun manna á gróðurhúsalofttegundum, um 41 milljarður tonna á ári, yrði kolefnisbókhaldið fyrir 1,5 gráður sprungið eftir tíu til fjórtán ár. Verði losunin áfram óbreytt kláraðist kolefnisbókhaldið fyrir tveggja gráðu hlýnun á 28-36 árum. Losun á heimsvísu er aftur á móti að aukast eftir að hún hafði staðið í stað í örfá ár.


Tengdar fréttir

Reykjarmökkur og vatnavextir í hitabylgju í Alaska

Methlýindi í Alaska hafa skapað kjöraðstæður fyrir kjarrelda sem geisa nú víða í ríkinu. Leysingar á jöklum og fjöllum hafa einnig valdið vatnavöxtum og flóðum í ám og lækjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×