Ein mest umrædda flugvél landsins síðustu mánuði lenti í Ljubljana, höfuðborg Slóveníu, í dag. TF-GPA sem flugfélagið WOW air leigði af flugvélaleigunni ALC fór frá Íslandi í morgun eftir úrskurð Héraðsdóms Reykjaness á miðvikudag um að Isavia þyrfti að láta farþegaþotuna af hendi.
ALC er með viðhaldsaðstöðu fyrir flugvélar í Slóveníu. Þar er verið að útbúa flugvélina fyrir næstu útleigu. Til stóð að leigja hana annað eftir fall WOW air. Ekkert varð af því vegna kyrrsetningar flugvélarinnar á Íslandi.

Greiðsla ALC nemur 4%
Eftir ríflega þriggja mánaða deilur og dómsmál er niðurstaða málsins sú að ALC greiddi 87 milljóna króna kröfu vegna notkunar flugvélarinnar hjá WOW air. Isavia vildi halda flugvélinni sem tryggingu fyrir heildarskuld WOW air sem nemur 2,2 milljörðum króna. ALC greiddi því sem nemur 4% af skuld WOW air.„Það hald sem við höfðum á bak við þessa tveggja milljarða skuld WOW air flaug í burtu í morgun. Engu að síður höfum við tækifæri til að halda málinu lifandi áfram. Það er mjög óheppilegt fyrir okkur að vélin skuli vera farin. Það sem er sérstaklega óheppilegt er að hún skuli fara á grundvelli úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness sem við erum mjög ósammála. Og ekki bara við heldur Landsréttur,“ segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia.

„Ef að hann stendur óbreyttur þá mun það hafa mikil áhrif á það hvaða heimild við höfum til að beita þessu ákvæði.“
Sveinbjörn segir að afskrifa þurfi 2,2 milljarða króna tekjur fáist ekkert upp í skuld WOW air.
„Það mun hafa auðvitað áhrif á rekstur Isavia á þessu ári. Ég geri ráð fyrir því að þegar upp er staðið verði reksturinn í járnum, öðru hvoru megin við núllið í lok árs. En þetta mun ekki hafa áhrif til framtíðar, þetta er að lenda svolítið á okkur núna,“ segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia.