Erlent

Íranir neita því að hafa misst dróna

Kjartan Kjartansson skrifar
Abbas Araqchi, aðstoðarutanríkisráðherra Írans og aðalsamningamaður gagnvart kjarnorkusamningum.
Abbas Araqchi, aðstoðarutanríkisráðherra Írans og aðalsamningamaður gagnvart kjarnorkusamningum. Vísir/EPA
Aðstoðarutanríkisráðherra Írans fullyrðir að stjórnvöld í Teheran hafi ekki misst neinn dróna yfir Hormússundi, þvert á yfirlýsingu Donalds Trump Bandaríkjaforseta í gær. Trump staðhæfði að bandarískt herskip hefði eytt írönskum dróna sem hefði flogið innan við 900 metra frá því.

Abbas Araqchi, aðstoðarráðherrann, segist óttast að bandaríska herskipið USS Boxer kunni að hafa skotið niður eigin dróna í tísti um ummæli Bandaríkjaforseta, að sögn Reuters. Trump fullyrti í gær að íranskur dróni hefði hunsað tilmæli um að láta sig hverfa.

Grunnt hefur verið á því góða á milli íranskra og bandarískra stjórnvalda um áratugaskeið en spennan hefur stigmagnast eftir að Trump sagði Bandaríkin frá kjarnorkusamningi heimsveldanna og Írans í fyrra.  Í kjölfarið lagði hann viðskiptaþvinganir aftur á Íran sem hafði verið aflétt með samningnum.

Bandaríkjastjórn hefur sakað Írani um að standa að baki árásum á flutningaskip á Hormússundi undanfarnar vikur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×