Þá var Árni forstjóri Teymis hf þegar það var skráð í Kauphöll Íslands auk þess sem hann starfaði sem framkvæmdastjóri hjá Olís og Högum. Hin síðari ár hefur Árni Pétur verið forstjóri Tíu Ellefu (10-11)/Iceland Verslun (Iceland) og Basko, en seldi hlut sinn 2016.
Árni Pétur tekur við starfinu af Hendrik Egholm sem sagði upp störfum í júní. Hendrik hafði unnið fyrir félagið í 12 ár, fyrstu 10 árin sem forstjóri dótturfélags Skeljungs í Færeyjum, Magn, en síðustu tvö ár sem forstjóri bæði Skeljungs og Magn.
Hittir aftur fyrir Jón Ásgeir
Árni Pétur hefur átt sæti í fjölmörgum stjórnum fyrirtækja, ýmist sem stjórnarmaður eða stjórnarformaður. Má þar nefna fyrirtæki s.s. Lyfja, Securitas, Skeljungur, Penninn, Borgun og Eldum rétt. Þá hefur Árni Pétur komið að rekstri símafyrirtækisins Kall í Færeyjum og Bónus í Færeyjum.Jón Ásgeir Jóhannesson, sjálfstæður fjárfestir og ráðgjafi, var kjörinn í stjórn Skeljungs í maí síðastliðnum en hann og Árni Pétur hafa áður átt í samstarfi. Kjarninn greinir frá því að Jón Ásgeir hafi verið forstjóri og síðar stjórnarformaður Baugs Group sem átti Haga var og var stærsti hluthafinn í Teymi þegar Árni Pétur stýrði því fyrirtæki.
Í apríl síðastliðnum var greint frá því að Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir, eiginkona Jóns Ásgeirs, hafi tryggt sér rúmlega tíu prósenta hlut í Skeljungi í gegnum félag sitt 365 miðla sem rekur Fréttablaðið í gegnum útgáfufélag sitt Torg.
„Með ráðningu á Árna Pétri sem forstjóra Skeljungs þá erum við að fá inn í fyrirtækið reynslu og þekkingu sem nýtist okkur til að sækja fram á við og móta fyrirtækið til framtíðar,“ er haft eftir Jens Meinhard Rasmussen, stjórnarformanni Skeljungs, í tilkynningu um ráðningu Árna Péturs.
„Ég hlakka til að takast á við þetta spennandi verkefni. Ég þekki Skeljung vel og veit að þar starfar öflugt og reynslumikið fólk. Starfsemi okkar á Íslandi og í Færeyjum byggir á traustum grunni sem við ætlum að halda áfram að þróa. Rekstrarumhverfi fyrirtækisins hefur og mun taka breytingum á næstu árum, sem gerir starfið mjög áhugavert,“ er haft eftir Árna Pétri í sömu tilkynningu.