Kornakrarnir undir Eyjafjöllum eru orðnir bleikir, - enn eitt dæmið um óvenju hagstætt tíðarfar í sumar. Bændurnir á Þorvaldseyri, Ólafur Eggertsson og Páll Eggert, sonur hans, ræstu kornskurðarvélina í dag en þeir hafa oft ekki hafið kornslátt fyrr en komið er fram undir miðjan september.
„En það er bara búið að vera svo frábært sumar og mikil hlýindi, eins og er í dag. Hérna er sextán stigi hiti og vindur. Kornið þornar bara á stráinu og það er kjörið að taka kornið á þessu stigi,“ segir Ólafur og minnist þess raunar að hafa áður byrjað kornskurð í endaðan ágúst.

„Já, þetta er bara alveg toppurinn að lifa við svona. Að fá svona góð ár inn á milli. Og það er ekkert skemmtilegra en að vinna á kornakri í góðu veðri, eins og er í dag. Sjá hvernig vélin veður í gegnum akurinn og hirðir kornið í tank. Og það fer upp á vagn og síðan heim í kornhlöðu.“
Og það eru ekki bara kýrnar sem fá að njóta byggsins sem fóðurs heldur einnig mannfólkið.
„Við erum að selja svona helminginn af korninu okkar til brugggerðar í Ölgerðinni. Og svo fer töluvert í mjöl líka, sem bakarí kaupa af okkur og baka úr þessu brauð og flatkökur og fleira," segir Ólafur Eggertsson á Þorvaldseyri.
Hér má sjá viðtalið við hann í fréttum Stöðvar 2: