Skoðun

Hugaðu að starfsþróun í háskólanámi

María Dóra Björnsdóttir og Jónína Kárdal skrifar
Eitt af markmiðum Háskóla Íslands er að mennta nemendur til þátttöku í atvinnulífi og samfélagi. Á árunum 2016 til 2018 útskrifaði skólinn á bilinu 2.800 til 3000 nemendur árlega og ráða flestir þeirra sig til starfa hjá stofnunum og fyrirtækjum að námi loknu eða stofna eigin fyrirtæki.

Í opinberri umræðu hefur komið fram að vinnumarkaðurinn muni taka miklum breytingum næstu árin samfara fjórðu iðnbyltingunni. Það leiðir hugann að því hvernig háskólanemendur geta annars vegar undirbúið sig sem best meðan á námi stendur til þátttöku á breyttum vinnumarkaði og hins vegar hvernig hægt er að styðja þá í því ferli. Í þessu samhengi er vert að nefna að atvinnuhæfnivísar til færni, skilnings og persónulegra eiginleika einstaklings sem auka líkur á því að viðkomandi fái vinnu að loknu háskólanámi og nái árangri í því starfi sem verður fyrir valinu. Það er augljóst að háskólanemar hafa sérhæfða þekkingu sem tengist námi þeirra og háskólagráðu en ýmislegt fleira skiptir máli sem þeir geta haft áhrif á meðan á námi stendur. Það er því mikilvægt að nemendur geri sér grein fyrir þeim færniþáttum sem þeir búa þegar yfir, setji sér markmið varðandi nám og störf og hefjist handa við að hrinda þeim í framkvæmd.

Dagur náms- og starfsráðgjafar á Íslandi er í dag og því viljum við vekja athygli á sérþekkingu, starfi og þjónustu fagstéttarinnar í þágu nemenda. Náms- og starfsráðgjafar á öllum skólastigum eru sérstaklega menntaðir til að styðja við starfsþróun einstaklinga. Hún stendur ævilangt og felst m.a. í stjórna eigin námi, vinnu, tómstundum og takast á við breytingar, s.s. námslok, í þeim tilgangi að færast nær þeirri framtíð sem hann eða hún hefur ákveðið að skapa sér.

Við upphaf háskólanáms er mismunandi hversu skýra framtíðarsýn nemendur hafa um áframhaldandi menntun að loknu grunnnámi eða þátttöku á vinnumarkaði. Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands býður upp á margvíslega þjónustu og fræðslu til að styðja við starfsþróun háskólanemenda og styrkja atvinnuhæfni þeirra og getu til að stjórna eigin starfsferli. Má meðal annars nefna ráðgjöf um námsval út frá áhuga og styrkleikum einstaklingsins, fræðslu um tímastjórnun og markmiðssetningu til að halda betur utan um nám, einstök verkefni og próf, leiðbeiningar um gerð ferilskrár, kynningarbréfs og ferilmöppu ásamt undirbúningi fyrir atvinnuviðtöl og fræðslu um mikilvægi þess að styrkja tengslanetið og vinna markvisst að faglegu orðspori.

Háskólanám er hluti af starfsferli þeirra sem það kjósa og námstími nemenda leggur grunn að því sem þeir taka sér fyrir hendur eftir útskrift. Það er því til mikils að vinna að nýta vel bæði tímann og þjónustuna sem er í boði.

María Dóra Björnsdóttir deildarstjóri

Jónína Kárdal, náms- og starfsráðgjafi

Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands




Skoðun

Sjá meira


×