Íslensku landsliðsmennirnir Alfreð Finnbogason og Gylfi Þór Sigurðsson tóku sér örstutta pásu frá undirbúningi fyrir stórleik dagsins í gær þegar þeir heimsóttu endurhæfingardeild Landspítalans á Grensás.
Frá þessu er greint á Íslendingavaktinni.
Friðrik Ellert Jónsson, sjúkraþjálfari íslenska landsliðsins, var með í för.
Á Grensás er fjölbreyttum hópi sjúklinga sinnt sem eiga það sameiginlegt að hafa tapað færni, tímabundið eða varanlega vegna slysa eða veikinda.
Á meðal sjúklinga er knattspyrnumaðurinn Aron Sigurvinsson sem lenti í alvarlegu bílslysi fyrir tveimur mánuðum en hann hefur spilað með Fjarðabyggð, Huginn og Elliða í neðri deildunum hér á landi.
Eins og sjá má á myndinni sem fylgir fréttinni fór vel á með þeim félögum en þeir Alfreð og Gylfi eiga verðugt verkefni fyrir höndum í kvöld þegar þeir etja kappi við heimsmeistara Frakklands.
