Erlent

Hákarl beit tvo Breta við strendur Ástralíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Ekki liggur fyrir hvers konar hákarl beit mennina.
Ekki liggur fyrir hvers konar hákarl beit mennina. Vísir/getty
Tveir breskir menn særðust alvarlega þegar hákarl beit þá á vinsælum ferðamannastað í Ástralíu. Annar maðurinn missti fót og hinn særðist á fæti. Annar maðurinn, Allister Raddon, er 28 ára gamall og hinn, Danny Maggs, 22. Sá eldri missti fótinn en þeir eru báðir í stöðugu ástandi.

Samkvæmt frétt BBC voru mennirnir í dagssiglingu og hafði báturinn verið stöðvaður og voru þeir á sundi að snorkla við bátinn þegar hákarlinn réðst á þá. Nánar tiltekið voru þeir í sjónum við Whitsunday-eyjar nærri Kóralrifinu mikla.



Vitni segja í samtali við ABC News í Ástralíu að þeir Raddon og Maggs hafi verið að ærslast í sjónum þegar hákarlinn réðst á þá.



Mennirnir voru fluttir með bátnum í land og þaðan voru þeir fluttir með þyrlu á sjúkrahús.

Árásin átti sér stað um tíu kílómetra frá vettvangi annarrar árásar hákarls í nóvember í fyrra þegar ástralskur maður lét lífið.

Yfirvöld segja nánast ómögulegt að koma fyrir nokkurs konar varnarnetum við eyjarnar. Það hafi verið reynt eftir árásina í fyrra. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort fara eigi í veiðiátak í kjölfari árásarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×