Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskra erfðagreiningar átti að vera einn af fyrirlesurum á landbúnaðar og fjölskylduhátíðinni Hey bóndi á Hvolsvelli í gær. Vegna veikinda forfallaðist hann en í staðinn mætti Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins og hélt ræðu, sem vakti mikla athygli. Guðni vandaði alþingismönnum landsins ekki kveðju sína, Páll Magnússon, alþingismaður var í salnum.
„Við skulum gera okkur grein fyrir því að íslensku landbúnaður á stórkostleg tækifæri ef að stjórnmálamennirnir vakna og átta sig á því hvað þeir hafa gert landbúnaðinum. Þinn flokkur Páll Magnússon og minn flokkur bera ábyrgð á því að landbúnaðarráðuneytinu var lagt niður 2007, því var stungið í skúffu í sjávarútvegsráðuneytinu. Það er ekkert rætt um landbúnað í landbúnaðarráðuneytinu lengur“, sagði Guðni.
Guðni sagði að búið væri að leggja sterkt félagskerfi bænda niður og því hafi verið rústað. Nú þurfi bændur að ná vopnum sínum á ný og byggja upp á félagskerfið á nýjan leik þar sem allir eru saman í einni keðju, allir fyrir einn.
„Við eigum tvö hundruð blóðmerabændur, fimm hundruð kúabændur, þúsund sauðfjárbændur og þúsund hrossabændur og við eigum bestu kjúklinga og svínabændur í veröldinni“, sagði Guðni og bætti strax við.
„Hugsið ykkur að pensilínið sem er rótað í fóðrið hjá kjúklingum, svínum og nautum úti í heimi í Evrópu og Ameríku, það mun drepa fleiri menn eftir fimmtíu ár heldur en krabbameinið, við erum hrein þjóð“.

„Heyrir þú það Páll, ég veit að Páll postuli heyrir í mér núna, en heyrðu nú og ef þú heyrir, þá legg ég á og mæli um að þú verðir næsti landbúnaðarráðherra“. Að lokum hrópaði Guðni og allur salurinn með ferfalt húrra fyrir íslenskum landbúnaði.