Erlent

Óttast fjölda dauðsfalla í mótmælunum í Íran

Samúel Karl Ólason skrifar
Mannréttindasamtökin Amnesty International segja minnst 106 vera dána en aðrir hafa sagt tölu látinna mun hærri.
Mannréttindasamtökin Amnesty International segja minnst 106 vera dána en aðrir hafa sagt tölu látinna mun hærri. AP/Mostafa Shanechi
Sameinuðu þjóðirnar óttast að fjölmargir séu dánir eftir umfangsmikil mótmæli þar í landi. Yfirvöld Íran lokuðu á aðgang borgara að internetinu vegna mótmælanna og Sameinuðu þjóðirnar kalla eftir því að sambandið verði opnað á ný.

Mannréttindasamtökin Amnesty International segja minnst 106 vera dána en aðrir hafa sagt tölu látinna mun hærri. Erfitt er að komast að hinu sanna vegna lokunar internetsins.

Mótmælin brutust út víða um Íran eftir að ríkisstjórnin þar í landi hækkaði verð eldsneytis og sagði að það yrði skammtað. Strax á föstudag hækkaði verðið um helming (50 prósent) eftir að ríkið dró úr niðurgreiðslum.



Það var gert vegna slæms ástands efnahags Íran sem að einhverju leyti hefur verið rekinn til viðskiptaþvingana Bandaríkjanna. Dregið hefur verulega úr útflutningi Íran á olíu vegna þvingananna og virði gjaldmiðils landsins hefur þar að auki lækkað mikið.

Samkvæmt nýju kaupreglunum hefur hver ökumaður leyfi til að kaupa 60 lítra af eldsneyti á mánuði og kostar hver lítri 15,92 íslenskar krónur. Hver lítri umfram það kostar 31,84 krónur. Áður fengu ökumenn að kaupa allt að 250 lítra á mánuði og kostaði lítrinn þá 10,6 krónur.

Samkvæmt frétt BBC segja yfirvöld í Íran að einungis nokkrir hafi látið lífið og hefur mótmælendum verið lýst sem óeirðarseggjum.



Starfsmenn Sameinuðu þjóðanna sögðu í dag að fregnir hefðu borist af því að verulega hart væri tekið á mótmælendum og jafnvel væri skotið á þá. Erfitt væri að staðfesta fregnir af svæðinu en fréttir héraðsmiðla gæfu í skyn að tugir hefðu látið lífið í minnst átta héruðum Íran.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×