Þrír Íslendingar voru í eldlínunni í Álaborg í dag þegar heimamenn fengu stjörnum prýtt lið Barcelona í heimsókn í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í handbolta.
Arnór Atlason þjálfar danska liðið og Janus Daði Smárason er leikstjórnandi þeirra. Janus sýndi fína spretti; skoraði fjögur mörk úr átta skotum en það dugði skammt gegn öflugu liði Börsunga.
Aron Pálmarsson var á sínum stað í liði Barcelona og gerði tvö mörk úr sjö skotum en leiknum lauk með fjögurra marka sigri gestanna, 30-34 eftir að Barcelona hafði leitt með einu marki í leikhléi, 14-15.
