Íslandsmeistarar Vals unnu öruggan sigur á Snæfelli, KR valtaði yfir Breiðablik og Skallagrímur hafði betur gegn Grindavík í Domino's deild kvenna í kvöld.
Íslandsmeistararnir gerðu góða ferð í Stykkishólm þar sem þær unnu þægilegan sigur á heimakonum.
Valur var 55-34 yfir í hálfleik og nokkuð ljóst í hvað stefndi. Lokatölur urðu 93-70 og eru Valskonur enn ósigraðar á toppnum.
KR þurfti heldur ekki að hafa of mikið fyrir hlutunum á heimavelli sínum þar sem Breiðablik mætti í heimsókn.
KR-ingar náðu að halda vel aftur af Blikum, þær grænu skoruðu aðeins níu stig í öðrum leikhluta og var staðan 54-24 í hálfleik.
Blikar komu af krafti út í þriðja leikhlutann en holan var orðin of djúp og endaði leikurinn í 90-60 sigri KR.
Það var meiri spenna í viðureign Skallagríms og Grindavíkur suður með sjó. Gestirnir úr Borgarnesi byrjuðu betur en heimakonur komu sterkari inn í annan leikhluta og var staðan 41-36 fyrir Grindavík í hálfleik.
Grindvíkingar skoruðu aðeins sjö stig í þriðja leikhluta á meðan Skallagrímur gerði 20 og lagði þar grunninn að sigri sínum, leikurinn fór 73-63 fyrir Skallagrími.
