Ásakanir Rosslyn Dillon koma fram í réttargögnum sem ástralska síðan New Daily hefur komist yfir. Segir hún að Bill Landeryou, fyrrverandi þingmaður og samflokksmaður Hawke, hafi nauðgað sér. Bæði Hawke og Landeryou eru nú látnir.
Í frétt BBC segir að hin 59 ára Dillon sæki nú fjórar milljónir ástralskra dala í dánarbú föður síns, um 270 milljónir íslenskra króna. Segir í gögnunum að Dillon segi Landeryou hafa nauðgað sér árið 1983, á þeim tíma er hún starfaði á skrifstofu þingmannsins og Hawke sóttist eftir því að verða leiðtogi ástralska Verkamannaflokksins.
Dillon segir að hún hafi þrívegis orðið fyrir kynferðisofbeldi. Eftir þriðja atvikið hafi hún rætt málið við föður sinn og að hún hugðist leita með málið til lögreglu. Þá eigi Hawke að hafa sagt: „Það getur þú ekki gert. Ég get ekki verið með nein deilumál núna. Mér þykir það leitt en ég sækist nú eftir því að leiða Verkamannaflokkinn.“
Fjölskyldan meðvituð
Sue Pieters-Hawke, systir Rosslyn Dillon, segir fjölskylduna hafa verið meðvitaða um ásakanirnar á þeim tíma. „Hún sagði fólki frá þessu á sínum tíma. Ég tel að viðbrögðin hafi verið stuðningsrík en það fól ekki í sér að leitað var til réttarkerfisins,“ segir Pieters-Hawke.Landeryou var þingmaður á árunum 1976 til 1992 og eru þeir Hawke sagðir hafa átt í góðum samskiptum í forsætisráðherratíð Hawke, frá 1983 til 1991.