Innlent

Sunnan­átt morgun­dagsins mun minna okkur á blóm í haga og langa sumar­daga

Atli Ísleifsson skrifar
Spákortið fyrir hádegið eins og það leit út í morgun.
Spákortið fyrir hádegið eins og það leit út í morgun. Veðurstofan

Hæð er nú stödd suður af landinu sem þokast austur en við Nýfundnaland er lægð á hægri leið til norðausturs. Útlit er fyrir að þessi veðrakerfi muni stjórni veðrinu hér á landi fram á laugardag.

Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar. Þar segir að reikna megi með hægt vaxandi suðlægri átt í dag og þykkni upp með dálítilli vætu en léttskýjað verði um landið norðaustanvert. Þannig megi búast við 3 til 10 metrum á sekúndu í dag, en sunnan 8 til 15 í kvöld.

„Strekkingssunnanátt í kvöld og á morgun með rigningu á köflum en hægari og þurrt austantil á landinu. Hiti víða 3 til 8 stig í dag en sunnanáttin beinir hlýrra lofti til okkar og minnir okkur á blóm í haga og lánga sumardaga, hiti 6 til 13 stig á morgun, hlýjast á Austurlandi,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag: Sunnan 10-15 m/s en hægari um landið austanvert. Súld með köflum en víða léttskýjað norðan- og austanlands. Sunnan 13-18 vestantil um kvöldið. Hiti 6 til 11 stig að deginum.

Á laugardag: Sunnanátt, víða 10-15 m/s. Bjartviðri norðaustantil á landinu, en súld eða dálítil rigning sunnan- og vestanlands. Hiti 4 til 9 stig.

Á sunnudag: Suðlæg eða breytileg átt og dálítil rigning, en þurrt norðaustanlands. Hiti 1 til 8 stig, svalast norðvestantil.

Á mánudag: Suðlæg átt og ringing með köflum, en úrkomulítið norðanlands. Hiti breytist lítið.

Á þriðjudag og miðvikudag: Fremur hæg austlæg eða breytileg átt og bjart með köflum, en væta af og til með vesturströndinni. Milt í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×