Körfubolti

Dóttir Jordan segir að pabbi sinn hafi komið henni á óvart í „The Last Dance“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jasmine Jordan með Air Jordan skó úr heimsfrægri skólínu föðurs síns.
Jasmine Jordan með Air Jordan skó úr heimsfrægri skólínu föðurs síns. Getty/Alexander Tamargo/

Jasmine, dóttir Michael Jordan, hefur tjáð sig um sína upplifun af því að horfa á heimildarþáttarröðina „The Last Dance“ þar sem farið er yfir síðasta tímabil Michael Jordan með Chicago Bulls.

Jordan hefur nefnilega gefið mikið af sér í viðtölum sínum í „The Last Dance“ og það eru ekki bara körfuboltaáhugamenn sem hafa séð meira af hans persónuleika en áður.

Dóttir Jordan segir að pabbi sinni hafi komið henni á óvart í þáttunum. Jasmine Jordan er eina dóttirin sem Jordan átti með fyrri konu sinni Juanitu Savoy en hún fæddist í desember árið 1992 og var því enn bara fimm ára þegar Chicago Bulls vann titilinn í júní 1998.

Jasmine Jordan var hissa á því að sjá faðir sinn tjá sig svo mikið um sitt líf en MJ hefur ekki verið mikið í fjölmiðlum síðan að körfuboltaskórnir fóru upp á hillu.

„Það kom mér mikið á óvart að sjá hann því hann vill vera vera út af fyrir sig. Hann vill ekki tjá sig um þjóðfélagsmál og hann vill ekki bregðast við þótt að fólk vilji fá viðbrögð frá honum,“ sagði Jasmine Jordan í viðtali við Associated Press.

„Ég hef horft á þættina og séð hann þar meyran og tilfinningasaman þar sem hann segir sína skoðun og fer yfir hlutina frá sínu sjónarhorn. Það hefur verið ótrúlegt að sjá þetta. Ég elska þetta líka því þetta sýnir öllum að hann er mannlegur sem margir hafa kannski gleymt. Eins og allir vita þá er hann einstakt undur og hann er Geitin. Hann er líka manneskja,“ sagði Jasmine Jordan.

Jasmine viðurkennir að samband hennar og pabba síns hafi orðið enn betra eftir að hann hætti að spila. Jasmine segir líka að það sé fullt af hlutum í þáttunum sem hún vissi ekki um áður.

„Ég er stanlaust að senda honum skilaboð. Ég held að það hafi ekki verið einn þáttur þar sem ég vildi ekki fá að vita meira hjá honum. Ég var svo ung þarna og er því að upplifa þessa þætti sem aðdáandi,“ sagði Jasmine.

„Ég var án efa pabbastelpa þegar ég var að alast upp. Hann kallar mig ennþá prinsessuna sína og ég er að verða þrítug,“ sagði Jasmine sem er nú búinn að gera Michael Jordan að afa. Hún segir að strákurinn hennar sé búinn að heilla afa sinn upp úr skónum og að hann geri allt fyrir hann.

„Pabbi minn myndi eflaust leyfa syni mínum að komast upp með morð. Þeir eiga orðið ótrúlegt samband og það er gaman að sjá það vaxa og dafna,“ sagði Jasmine Jordan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×