Andrea Mist Pálsdóttir er gengin í raðir FH frá ítalska úrvalsdeildarfélaginu Oribicia Calcio og mun leika með nýliðunum í Pepsi Max deildinni í sumar.
FH greindi frá þessu á Facebook síðu sinni í dag en þar kemur fram að Andra Mist muni leika með liðinu í sumar en óvíst er hversu langan samning hún gerir við félagið.
Andra gekk í raðir Oribicia Calcio í janúar síðastliðnum. Var það ekki í fyrsta skipti sem hún fór erlendis í janúar á síðasta ári gekk hún í raðir FFC Vorderland sem lék í austurrísku úrvalsdeildinni og lék þar fram að sumri.
Hún lék alla leiki Þór/KA í Pepsi Max deildinni á síðustu leiktíð og þá varð hún Íslandsmeistari með liðinu sumarið 2017.
Alls á hin 22 ára Andrea 114 leiki í deild og bikar hér á landi. Þá hefur hún leikið þrjá landsleiki fyrir Íslands hönd ásamt því að hafa verið í öllum yngri landsliðum.
FH liðið hefur styrkt sig duglega í vetur en landsliðskonan Sigríður Lára Garðarsdóttir gekk í raðir liðsins síðasta haust.