Innlent

Allt að sextán stiga hiti í dag

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Búast má við miklum hlýindum í höfuðborginni í dag.
Búast má við miklum hlýindum í höfuðborginni í dag. Vísir/vilhelm

Búast má við fallegu veðri á Suður- og Vesturlandi í dag og á morgun. Létt háskýjabreiða mun líklega „trufla sólina“ í dag en síður á morgun, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings. Hiti verður 4 til 16 stig yfir daginn, hlýjast á Suðurlandi.

Mun svalara verður á Norður- og Austurlandi en þó nokkuð bjart yfir á svæðinu í dag, „enda ekki við háum hitatölum að búast þegar vindur stendur af hafi svona snemma sumars,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

„Hins vegar gætum við séð tölur þar sem best lætur suðvestantil uppundir 17 gráður, en þá þarf allt að smella saman. Á sunnudag er svo lægð með allmyndarleg skil að nálgast landið og þá léttir til fyrir norðan og austan og hlýnar þar aftur en fer að rigna í örðum landshlutum.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:

Norðan- og norðaustan 5-13 m/s og dálítil rigning eða slydda austast á landinu, annars skýjað með köflum, en bjartviðri SV-lands. Hiti frá 2 stigum NA-lands að 15 stig á S-landi.

Á sunnudag:

Vaxandi suðaustanátt og þykknar upp, 10-15 m/s og rigning undir kvöld, en þurrt að kalla NA-lands. Hlýnandi veður fyrir norðan og austan.

Á mánudag:

Suðlæg átt með vætu víða á landinu, en úrkomulítið NA-til. Hiti 6 til 11 stig.

Á þriðjudag:

Vestlæg átt og víða dálítil væta, einkum þó V-til. Hiti víða 3 til 12 stig, mildast SA-lands.

Á miðvikudag: Suðvestanátt með vætu á V-verðu landinu, en annars þurrt og milt veður. Hiti 6 til 11 stig.

Á fimmtudag:

Útlit fyrir suðlæga átt með vætu, en þurrt og hlýtt fyrir norðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×