Körfubolti

Steph Curry og Klay Thompson mótmæltu báðir á götum Oakland

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry og Klay Thompson hafa orðið þrisvar sinnum meistarar saman með liði Golden State Warriors.
Stephen Curry og Klay Thompson hafa orðið þrisvar sinnum meistarar saman með liði Golden State Warriors. Getty/Ezra Shaw

NBA stórstjörnurnar Stephen Curry og Klay Thompson tóku ásamt fleiri liðsfélögum í Golden State Warriors þátt í mótmælagöngu á götum Oakland borgar.

Örlög Georgo Floyd hafa hneykslað marga út um allan heim enda enn eitt dæmið um harða og ómanneskjulega meðferð hvítra lögreglumanna á svörtum mönnum. Floyd kafnaði eftir að hvítur lögreglumaður lá með hné sitt á hálsi hans í langan tíma.

Mikið hefur verið um mótmæli í Bandaríkjunum frá því að myndbandið með meðferðinni á Georgo Floyd komst í fréttirnar. Mörgum þykir löngu kominn tími á að taka á kynþáttafordómum í Bandaríkjunum og fjöldi NBA leikmanna hafa ekki látið sitt eftir liggja.

Tvær af stærstu stjörnum NBA-deildarinnar sem hafa tekið þátt í slíkum mótmælum eru stórskytturnar Stephen Curry og Klay Thompson.

Klippa: Steph Curry og Klay Thompson mótmæltu á götum Oakland

Mótmælin voru undir nafninu „The Walking in Unity“ og voru friðsamleg. Juan Toscano-Anderson, framherji Golden State Warriors liðsins, skipulagði gönguna og hún fór fram í kringum Merrit vatnið. Juan Toscano-Anderson er 27 ára gamall og náði að spila þrettán leiki með Golden State fyrir kórónuveiruhlé.

Það var einmitt á sama stað sem Golden State Warriors hefur haldið sigurhátíðir sínar eftir fjóra síðustu NBA-titla sína.

Eins og sjá má hér fyrir ofan þá mætti Stephen Curry með konu sinni Ayesha og þar má einnig sjá Klay Thompson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×