Innlent

Gular viðvaranir vegna hvassviðris

Samúel Karl Ólason skrifar
Veðurstofa Íslands hefur gefið út tvær gular viðvaranir vegna hvassviðris í kvöld og í nótt.
Veðurstofa Íslands hefur gefið út tvær gular viðvaranir vegna hvassviðris í kvöld og í nótt. Vísir/Vilhelm

Veðurstofa Íslands hefur gefið út tvær gular viðvaranir vegna hvassviðris í kvöld og í nótt. Þær ná til Faxaflóa og Suðausturlands þar sem búist er við að vindkviður verði sterkar og að varasamt geti verið að keyra um svæðin.

Í Faxaflóa er búist við að hvassast verði á sunnanverðu Snæfellsnesi. Vindhviður verði snarpar og fari sums staðar yfir 25 m/s. Aðstæður verði sömuleiðis ekki góðar fyrir ferðalanga undir Hafnarfjalli og þá sérstaklega fyrir ökutæki með aftanívagna.

Viðvörunin gildir frá klukkan fimm í dag til níu í fyrramálið.

Svipaða sögu er að segja af Suðausturlandi þar sem búist er við norðaustan 13-20 m/s, eins og á Snæfellsnesi, og snörpum vindhviðum við fjöll. Þær eru sömuleiðis sagðar geta farið yfir 25 m/s undir Öræfajökli og í Mýrdalnum.

Veðurstofan segir að þar geti einnig skapast varasöm akstursskilyrði og sérstaklega fyrir bíla með aftanívagna.

Á landinu öllu er búist við vaxandi norðaustanátt í dag. Eftir hádegi nái vindurinn 8-13 m/s en hann verði lengst af hægari NA- og S-lands. Austantil á landinu er búist við rigningu seinnipartinn.

Útlit er fyrir þurrt veður annarsstaðar á landinu.

Hiti 9 til 15 stig yfir daginn, en 5 til 10 stig N- og A-lands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×