Erlent

Dæmt til að greiða reknum starfs­manni vegna Hitler-míms

Atli Ísleifsson skrifar
Bruno Gantz í hlutverki Adolf Hitler í myndinni Der Untergang frá árinu 2004.
Bruno Gantz í hlutverki Adolf Hitler í myndinni Der Untergang frá árinu 2004.

Olíufélagið BP hefur verið dæmt til að greiða starfsmanni á olíuhreinsistöð BP í Ástralíu um 200 þúsund dali, um 20 milljónir króna, fyrir ólögmæta uppsögn. Maðurinn var rekinn fyrir að skapa og birta svokallað mím, sem byggði á vel þekktu atriði úr þýsku myndinni Der Untergang (e. Downfall), í lokuðum Facebook-hóp þar sem hann gagnrýndi starfshætti fyrirtækisins.

Scott Tracey notaðist við mímið (e. meme), þar sem sjá má leikarann Bruno Gantz í hlutverki Adolf Hitler, til að hæðast að fyrirtækinu og gang kjaraviðræðna þess við starfsmenn.

Tracey var rekinn frá BP, en eftir tveggja ára málaferli hafa honum verið dæmdar bætur fyrir ólöglega uppsögn. Hann hefur sömuleiðis snúið aftur til vinnu hjá félaginu.

Í míminu má sjá Hitler reiðast í byrgi sínu þar sem hann ræðir við herforingja sína. Hafa fjölmargir breytt textanum sem fylgir til að búa til brandara.

Tracey fór fyrst með málið fyrir gerðardóm þar sem hann beið lægri hlut. Hann fór síðar með málið fyrir dómstóla og kvað alríkisdómstóll upp þann dóm að það væri ekki hægt að halda því með réttu fram að verið væri að líkja stjórnendur BP við nasista. Sömuleiðis hafi enginn verið nafngreindur í míminu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×