Körfubolti

„Gömlu karlarnir“ allt í öllu á æsispennandi lokamínútunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chris Paul var frábær á lokakaflanum í nótt.
Chris Paul var frábær á lokakaflanum í nótt. Getty/Nathaniel S. Butler

Reynsluboltarnir Chris Paul, Derrick Rose og Carmelo Anthony gerðu allir gæfumuninn fyrir sín lið á lokasekúndunum í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. LeBron James og félagar í Los Angeles Lakers unnu sinn sjötta leik í röð.

LeBron James var með 31 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar á 31 mínútu þegar Los Angeles Lakers vann 117-87 heimasigur á New York Knicks en Lakers liðið hefur nú unnið sex leiki í röð og 30 af 37 leikjum tímabilsins.

Anthony Davis var mjög rólegur í leiknum og skoraði aðeins 5 stig á 28 mínútum en hann datt líka illa og gat ekki klárað leikinn þess vegna. Kentavious Caldwell-Pope kom með 15 stig inn af bekknum. Rajon Rondo gaf líka 10 stoðsendingar á 23 mínútum og Dwight Howard var með 13 fráköst, 8 stig og 5 varin skot á 25 mínútum.



Chris Paul skoraði 20 af 28 stigum sínum í fjórða leikhluta og framlengingu þegar Oklahoma City Thunder vann 111-103 útisigur á Brooklyn Nets. Staðan var 103-103 þegar Paul setti niður tvö stökkskot í röð og heimamenn í Brooklyn Nets skoruðu síðan ekki eftir það.

Shai Gilgeous-Alexander skoraði 22 stig fyrir Thunder liðið sem vann þarna í sjötta sinn í síðustu sjö leikjum. Steven Adams var með 10 stig og 18 fráköst en OKC lék án Ítalans Danilo Gallinari sem er meiddur á kálfa.



Derrick Rose skoraði lykilkörfu 27 sekúndum fyrir leikslok þegar Detroit Pistons vann 115-113 útisigur á Cleveland Cavaliers. Derrick Rose var með 24 stig í leiknum en karfa hans kom Detroit í 114-113.

Andre Drummond var með 23 stig og 20 fráköst fyrir Detroit Pistons en þetta er í 38. sinn á ferlinum sem hann nær 20-20 leik. Kevin Love skoraði 30 stig fyrir Cleveland sem tapaði fimmta leiknum í röð.



Carmelo Anthony skoraði ekki aðeins sigurkörfuna fyrir Portland Trail Blazers í 101-99 útisigri á meisturum Toronto Raptors heldur var hann með alls 28 stig í leiknum. Anthony hitti úr 5 af 8 þriggja stiga skotum sínum og var einnig með 7 fráköst og 2 stolna bolta.

„Maður með svona hæfileika þarf bara að fá tækifærið. Hann var bara með einn mann á sér og komst á sinn stað. Eftir það var ég viss um að hann myndi setja hann,“ sagði Damian Lillard sem er vanur að taka skotin í lokin hjá Portland Trail Blazers en var tvídekkaður að þessu sinni.

Damian Lillard skoraði 20 stig og gaf 9 stoðsendingar, Hassan Whiteside var með 14 stig og 16 fráköst og Portland liðið endaði þarna fjögurra leikja taphrinu.  Kyle Lowry var með 24 stig og 10 stoðsendingar fyrir meistrarana en það dugði ekki til.



Úrslitin í leikjum NBA deildarinnar í nótt:

Los Angeles Lakers - New York Knicks 117-87

Phoenix Suns - Sacramento Kings  103-114

Memphis Grizzlies - Minnesota Timberwolves 119-112

Brooklyn Nets - Oklahoma City Thunder 103-111

Cleveland Cavaliers - Detroit Pistons 113-115

Toronto Raptors - Portland Trail Blazers 99-101

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×