Erlent

Háskólakennarinn segist ítrekað hafa neitað að gerast njósnari fyrir Íran

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Gilbert er sögð hafa verið fangelsuð sumarið 2018.
Gilbert er sögð hafa verið fangelsuð sumarið 2018. Twitter

Kylie Moore-Gilbert, bresk-ástralskur háskólakennari sem setið hefur í fangelsi í Íran síðan árið 2018, er sögð hafa hafnað tilboði íranskra yfirvalda um að gerast njósnari í skiptum fyrir frelsi. Þetta hefur Guardian upp úr bréfum sem hún sendi úr fangelsinu.

Moore-Gilbert er menntuð í stjórnmálum Mið-Austurlanda við Cambridge-háskóla. Hún var í fyrra dæmd í tíu ára fangelsi í Íran fyrir njósnir og afplánar nú dóminn í einangrunarvist í hinu alræmda Evin-fangelsi í Teheran. Bæði Moore-Gilbert og áströlsk yfirvöld segja ákæruna á hendur henni uppspuna frá rótum.

Sjá einnig: Ástralski há­skóla­kennarinn sagður hafa verið yfir ár í ein­angrunar­vist

Guardian birti seint í gærkvöldi umfjöllun upp úr bréfum sem Moore-Gilbert ritaði stjórnvöldum í Íran á tímabilinu júní til desember 2019. Þar segir hún að í október síðastliðnum hafi henni verið boðnir afarkostir: annars vegar þrettán mánaða dóm, sem hefði tryggt henni frelsi, og hins vegar staðfesting á tíu ára dómnum.

„Ég er ekki njósnari“

Þá greinir hún einnig frá því að henni hafi verið boðið að njósna fyrir Íran í skiptum fyrir fyrri valkostinn og þannig lausn úr fangelsinu. Hún kveðst hins vegar ítrekað hafa hafnað slíkum tilboðum.

„Ég er ekki njósnari. Ég hef aldrei verið njósnari og ég hef engan áhuga á því að starfa fyrir njósnasamtök í nokkru landi. Þegar ég yfirgef Íran vil ég vera frjáls kona og lifa frjálsu lífi, ekki í skugga kúgana og hótana,“ skrifar Moore-Gilbert í bréfi sem stílað er á einstakling sem fer með mál hennar í írönsku stjórnkerfi.

Moore-Gilbert lýsir jafnframt hræðilegum aðstæðum í fangelsinu í bréfum sínum. Hún segist hafa verið í einangrun svo mánuðum skipti í sex fermetra klefa allan sólarhringinn. Þá sé henni neitað um að hringja í fjölskyldu sína og líkamlegri og andlegri heilsu hennar hafi hrakað mjög, svo mikið að hún hafi ítrekað verið flutt á sjúkrahús.

Áströlsk yfirvöld hafa reynt að semja um framsal Moore-Gilbert en án árangurs. Áður hafði verið greint frá því að þau Jolie King og Mark Firkin, ástralskt par sem hefur notið mikilla vinsælda sem ferðabloggarar á samfélagsmiðlum, væru í haldi í Evin-fangelsinu.

Þau voru handtekinn á ferðalagi í byrjun júní síðastliðnum en sleppt úr haldi í október í skiptum fyrir íranskan fanga sem handtekinn var í áströlsku borginni Brisbane.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×