Innlent

Lægir í nótt og herðir á frosti

Atli Ísleifsson skrifar
Svona verður staðan á hádegi samkvæmt spá Veðurstofunnar.
Svona verður staðan á hádegi samkvæmt spá Veðurstofunnar. Veðurstofan

Gera má ráð fyrir norðlægri átt á landinu í dag, víða milli fimm til þrettán metrar á sekúndu, en heldur hvassari undir austanverðum Vatnajökli í kvöld.

Á vef Veðurstofunnar kemur fram að það verði snjókoma með köflum norðanlands, en léttskýjað sunnantil. Frostið verði yfirleitt á bilinu 0 til 7 stig, kaldast inn til landsins.

„Það lægir í nótt, og á morgun verður hæg breytileg átt og úrkomulítið veður. Það herðir á frosti, og búast má við tveggja stafa frosttölum í innsveitum norðanlands.

Á sunnudag verður svo hæg suðlæg átt með stöku éljum sunnan- og vestantil á landinu, og áfram kalt í veðri,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur næstu daga

Á laugardag: Hæg breytileg átt, skýjað með köflum og yfirleitt þurrt, en norðvestan 5-13 m/s og dálítil él norðaustantil fyrri part dags. Frost 1 til 12 stig, kaldast inn til landsins.

Á sunnudag: Fremur hæg suðlæg átt. Skýjað með köflum eða bjartviðri, en stöku él um landið sunnan- og vestanvert. Frost 3 til 13 stig, kaldast í innsveitum.

Á mánudag: Fremur hæg breytileg og síðar norðlæg átt. Skýjað með köflum og stöku él. Áfram kalt í veðri.

Á þriðjudag: Gengur í hvassa sunnan- og suðvestanátt með slyddu eða rigningu sunnan- og vestantil. Hlýnandi veður.

Á miðvikudag: Suðvestlæg átt með skúrum eða slydduéljum, og síðar rigningu eða slyddu. Hiti um og yfir frostmarki.

Á fimmtudag: Útlit fyrir suðvestlæga átt með snjókomu eða éljum. Kólnandi veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×