Alexander Petersson skoraði sjö mörk og var næstmarkahæstur í liði Rhein-Neckar Löwen sem vann nauman sigur á Nimes, 32-31, í miklum spennuleik í EHF-bikarnum í handbolta.
Jannik Kohlbacher skoraði sigurmark Ljónanna þegar skammt var eftir af leiknum.
Hann skoraði sjö mörk líkt og Alexander. Andy Schmid var markahæstur í liði Löwen með átta mörk.
Löwen, sem Kristján Andrésson þjálfar, er með tvö stig í B-riðli líkt og spænska liðið Cuenca sem vann Team Tvis Holstebro, 29-27. Ýmir Örn Gíslason lék ekki með Löwen í dag.
Guðjón Valur Sigurðsson skoraði þrjú mörk úr þremur skotum þegar Paris Saint-Germain sigraði Celje á útivelli, 29-33, í A-riðli Meistaradeildar Evrópu.
PSG er með 18 stig líkt og Barcelona og Pick Szeged.
