Sport

33 ára gömul mamma ætlar að vera sú fljótasta í heimi á ÓL í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shelly-Ann Fraser-Pryce fagnar HM-gullinu í fyrrahaust með syninum Zion.
Shelly-Ann Fraser-Pryce fagnar HM-gullinu í fyrrahaust með syninum Zion. Getty/Serhat Cagdas

Shelly-Ann Fraser-Pryce skrifaði sig á spjöld sögunnar í september og hefur nú sett stefnuna á að gera það aftur á Ólympíuleikunum í sumar.

Shelly-Ann Fraser-Pryce varð í september elsta konan til að verða heims- eða Ólympíumeistari í 100 metra hlaupi þegar hún varð heimsmeistari á HM í Dóha.

Þetta var fjórði heimsmeistaratitill hennar í 100 metra hlaupi á ferlinum en sá fyrsti eftir að hún varð mamma í fyrsta sinn.

Fraser-Pryce varð einnig heimsmeistari 2009, 2013 og 2015 en hún eignaðist soninn Zyon í ágúst 2017.

Shelly-Ann Fraser-Pryce var frá keppni í tvö ár en snéri til baka með glæsibrag og kom fyrst í mark á HM 2019 á 10,71 sekúndum. Hún kom í mark 0,12 sekúndum á undan hinni 24 ára gömlu Dinu Asher-Smith.

Nú hefur Fraser-Pryce sett stefnuna á að vinna sitt þriðja Ólympíugull í 100 metra hlaupi en hún vann gull á ÓL í Peking 2008 og ÓL í London 2012 en brons á ÓL í Ríó 2016.



„Ég er ekki í vafa á því að þetta er möguleiki miðað við það að ég hef nú haft eitt ár í viðbót til að bæta mitt form. Ég fékk góðan tíma til að hugsa um mín markmið í barnsburðarleyfinu og ég ákvað að halda áfram og ná mínum fjórðu Ólympíuleikum,“ sagði Shelly-Ann Fraser-Pryce.

Shelly-Ann Fraser-Pryce ætlar einnig að keppa í 200 metra hlaupi á ÓL í Tókýó en hún varð heimsmeistari í eina skiptið í þeirri grein fyrir sjö árum síðan. Fraser-Pryce vann einnig silfur í 200 metra hlaupi á ÓL í London 2012.

„Ég ætlaði alltaf að taka tvennuna á heimsmeistaramótinu líka en þjálfarinn minn vildi það ekki af því að ég var að koma til baka eftir langt hlé. Núna ætla ég að keppa í báðum greinum og allur minn undirbúningur miðast við það,“ sagði Fraser-Pryce.



Shelly-Ann Fraser-Pryce þurfti að fara í keisaraskurð þegar hún eignaðist Zion og þurfti því að hlaupa með sérstakt stuðningsband til að styðja við kviðinn hennar. Hún lét það ekki stoppa sig.

Fraser-Pryce vann síðan hug og hjörtu heimsins þegar hún hljóp sigurhringinn með tveggja ára son sinn í fanginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×