Innlent

Vætu­tíð og hlýindi í kortunum eftir allt að 15 stiga frost í dag

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Gera má ráð fyrir austlægri átt í dag, golu eða kalda.
Gera má ráð fyrir austlægri átt í dag, golu eða kalda. Vísir/vilhelm

Frostlaust verður syðst á landinu í dag en kaldara fyrir norðan, þar sem frost gæti farið niður í fimmtán stig í innsveitum. Útlit er fyrir vætutíð og hlýindi frá því á miðvikudag og fram að helgi, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Gera má ráð fyrir austlægri átt í dag, golu eða kalda. Snjókoma verður með köflum við suðurströndina og á Reykjanesi fram eftir degi og dálítil él austanlands. Víða þurrt í öðrum landshlutum.

Þá gengur í sunnan 10-18 m/s með snjókomu og síðar rigningu sunnan- og vestanlands eftir hádegi á morgun. Heldur hægari vindur á Norðaustur- og Austurlandi og lítilsháttar snjókoma um kvöldið. Hlýnandi veður. Sunnan strekkingur á miðvikudag, milt veður og rigning, en styttir upp norðaustan- og austanlands.

„Og það er útlit fyrir vætutíð og hlýindi fram að helgi, en í sunnanáttinni sleppur Norðausturland að mestu við rigninguna,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:

Snýst í vaxandi sunnanátt, 8-15 m/s síðdegis með snjókomu og síðar slyddu eða rigningu, en úrkomulítið á NA- og A-landi. Hlýnandi veður.



Á miðvikudag og fimmtudag:

Sunnan 8-15 og súld eða rigning, en þurrt að kalla NA-til á landinu. Hiti 2 til 10 stig.



Á föstudag:

Suðaustanátt, vætusamt og milt, en úrkomulítið N-lands.



Á laugardag:

Sunnanátt og rigning eða slydda, hiti 0 til 5 stig.



Á sunnudag:

Suðlæg átt og víða él, hiti nálægt frostmarki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×