Skoðun

Hvaðan eiga peningarnir eigin­lega að koma?

Ole Anton Bieltvedt skrifar

Mikið er rætt og ritað um heilbrigðisþjónustuna á Íslandi. Hafa ýmsir tekið til máls í þessari umræðu, líka góðir menn og gegnir.

Þorsteinn Pálsson, merkur og snjall stjórnmálamaður, skrifar grein í Fréttablaðið nýlega og spyr með þessari fyrirsögn: „Engin plön um að lyfta Íslandi úr botnsætinu“. Fjallar hann þar m.a. um, að Íslendingar verji nú minnstu hlutfalli af vergri landsframleiðslu til heilbrigðisþjónustu af Norðurlöndunum.

Annar merkur maður og frumlegur, sem reyndar kom með þá tilgátu, að Íslendingar væru vitlausari en aðrar þjóðir, væntanlega að honum undanskildum, Kári Stefánsson, stofnaði til herferðar til „endurreisnar heilbrigðiskerfisins“, þar sem 11% voru sett sem það hlutfall af vergri landsframleiðlsu, sem ganga skyldu til heilbrigðiskerfisins.

Féllust 80 þúsund landsmenn á það markmið, ég hygg þó án þess að hugsa vel, hvað það þýddi og hverjar afleiðingar það kynni að hafa fyrir aðra málaflokka.

Ef menn hvetja til aukinna ríkisútgjalda á einu sviði, verða þeir að útskýra í leiðinni, af hvaða öðrum útgjaldasviðum taka skal féð, eða, hvernig afla skal nýrra tekna, skatta, telji menn það leiðina.

Verg landsframleiðslu 2018 (síðasta tala) var 2.803,0 milljarðar króna (mia), og í fjárlögum fyrir 2020 falla þessir útgjaldaliðir beint undir heilbrigðisþjónustu:

Sjúkrahúsþjónusta 105,6 mia, heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa 54,9 mia, hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta 54,4 mia og lyf og læknisvörur 26,3 mia, samtala 241,3 mia. Er það hlutfall 8,6% af vergri landsframleiðslu.

Ekki er vitað, hvert Þorsteinn Pálsson vill fara með hlutfall heilbrigðisþjónustu af vergri landsframleiðslu, en Kári talar enga tæpitungu; 11% skulu það vera.

11% af vergri landsframleiðslu myndi þýða, að hækka yrði framlag til heilbrigðismála úr 241,3 mia í 308,33 mia, eða um 67,0 mia á ári. Engin skiptimynt það.

Hugsaði vísindamaðurinn mikli – en það er hann víst svo sannarlega – eitthvað til þess, hvaðan þessir fjármunir ættu að koma? Hér er um hækkun framlags að ræða, sem nemur hvorki meira né minna en 200.000,00 krónum, á hvers mannsbarn í landinu, og það á hverju ári!

Af hvaða öðrum útgjaldaliðum ríkisins ætti að taka þetta mikla fé, eða, hvaða skatta skyldi hækka?

Sem dæmi, er heildarkostnaður við löggæslu 29,8 milljarðar, en lögregluyfirvöld voru að gefa til kynna, að, ef löggæzla ætti að komast i viðunandi horf, vantaði yfir 200 nýja lögreglumenn. Varla kemur fé þaðan.

Eða, ætti að taka þetta fé af samgöngumálum? Þau eiga að fá 47,0 mia 2020, og þótti mörgum þar við nögl skorið.

Má klípa af umhverfismálum? Þau eiga að fá 20,0 mia 2020. Það væri af og frá á tímum grænnar framrásar.

Kannske mætti hirða aðeins af menningu og listum, sem eiga að fá 15,8 mia? Þá myndu trúlega koma skaðræðisóp frá Lilju Dögg og fleirum. Stórum kór.

Hvað með háskólakerfið, sem fær 44,1 mia? Kunnugir telja, að hér sé nú þegar líka um alvarlegt og krítiskt vanhald að ræða, sem þyrfti að bæta, en alls ekki rýra, enda er góð menntun forsenda fyrir framtíðarheill þjóðarinnar.

Varla trúi ég því, að Kári renni hýru auga til málefna aldraðra, 82,4 mia, eða örorku og  málefni fatlaðs fólks, 72,1 mia?

Sannleikurinn er sá, að það er mikil þörf á flestum þjónustu- og útgjaldasviðum ríkissjóðs, og víða væru frekari framlög bæði æskileg og nauðsynleg.

Hafa verður í huga, að heildarrammi frumgjalda ríkisins fyrir 2020 er „aðeins“ 813,7 mia, og, ef málefnum aldraðra, örorku og málefnum fatlaðra, fjölskyldumálum og lýðheilsumálum er bætt við framlagi til heilbrigðisþjónustu - en þetta er allt nátengt og gæti í víðari skilningi flokkast undir „heilbrigðis- og velferðarþjónustu“ - þá erum við komin í 447,1 mia, eða 56,6% af heildar útgjöldum ríkisins 2020. Hlutfall af vergri lands-framleiðslu væri þá 16%. Ekki veit ég, hvernig hin Norðurlöndin reikna þetta.

Það, sem að mati undirritaðs stenzt enga skoðun í útgjaldaáætlun ríkisins 2020, er framlag til sjávarútvegs og fiskeldis, 7,0 mia. Er það ekki meira, en auðlindagjaldið, sem sjávarútvegurinn greiðir í ríkissjóð? Ótækt!

Flestir munu sammála um, að sjávarútveginum bæri að leggja miklu meira fram til samneyzlunar, en nú er, en ekki hefur tekizt að knýja slíka aukningu fram, vegna sterkra áhrifa þeirrar greinar á stjórnvöld, öflugrar klíku, og er ekki líklegt, að breyting verði á því, þrátt fyrir réttmæti þess.

Landbúnaður fær 16,2 milljarða, sem er umdeilanlegt framlag  og fer sennilega mikið í niðurgreiðslu offramleiddra landbúnaðarafurða á erlendum markaði, en ekki breytist þetta, svo lengi sem D og B eru hér í valdastöðu.

Auðvitað eru heilbrigðismál feykilega þýðingarmikil, en á þeim svo líka önnur mikilvæg hlið.

Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði, og Jóhanna E. Torfadóttir, næringar- og lýðheilsufræðingur, skrifuðu sameiginlega grein í Fréttablaðið á dögunum. Þar kom fram, að óhollt mataræði veldur fleiri sjúkdómum og dauðsföllum, en reykingar, misnotkuna lyfja, neyzla vímuefna og áfengisneyzla – og er þá mikið sagt – samanlagt.

Sennilega gæti öflugt og virkt fyrirbyggjandi starf, í gegnum víðtæka og markvissa fræðslu um mataræði, lífshætti og lífsstíl, örvun til íþrótta, líkamsræktar og hollari lífshátta, markviss stefna í matvælaframleiðslu og næringarmálum m.m., dregið miklu meira úr kostnaði við sjúka, en slíkar aðgerðir myndu kosta.

Hér má líka vitna í landlækni, Ölmu D. Möller, en í grein, líka í Fréttablaðinu, skýrir hún frá því, að Íslendingar séu þyngstir allra Evrópuþjóða, en 27% fullorðinna voru með líkamsþyngdar-stuðul 30, eða hærri, árið 2017, samanborið við 12% árið 2002. Réttur stuðull er 25, eða minna.

Eins og kunnugt er, veldur offita miklum og alvarlegum sjúkdómum, svo sem hjarta- og æðasjúkdómum, krabbameini, öndunarfærasjúkdómum og sykursýki, líka sálrænni og andlegri vanheilsu, sem aftur leiðir til mikils þjónustu- og kostnaðarálags fyrir heilbrigðisþjónustuna.

Að lokum þessi áherzla:

Ef menn koma með tillögur um aukin útgjöld til ákveðinnar þjónustu, verða menn jafnframt, að gera grein fyrir, hvaðan féð á að koma. Annað er ófullnægjandi og tilgangslaust tal. Hreint klór.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×