Erlent

Nýju, bláu vega­bréf Breta verða fram­leidd í Pól­landi

Atli Ísleifsson skrifar
Priti Patel, innanríkisráðherra Bretlands, kynnti vegabréfin í gær.
Priti Patel, innanríkisráðherra Bretlands, kynnti vegabréfin í gær. Breska innanríkisráðuneytið

Störf um tvö hundruð starfsmanna bresks vegabréfaframleiðanda eru sögð vera í hættu eftir að framleiðandi frá meginlandi Evrópu bauð best í útboði um framleiðslu á nýjum vegabréfum. Nýju, bresku vegabréfin verða framleidd í Póllandi.

Breska blaðið Times segir frá því að breska fyrirtækið De La Rue þurfi líklega að segja upp 170 manns eftir að hollensk-franska fyrirtækið Thales, með starfsemi í Póllandi, hafði betur í útboði um framleiðslu á um 50 milljónum breskra vegabréfa.

Breska innanríkisráðuneytið tilkynnti í gær að horfið yrði frá vínrauðu kápunum á breskum vegabréfum og horfið aftur til þeirra bláu. Bresk vegabréf voru blá fram á níunda áratuginn þegar aðildarríki ESB ákváðu að samræma útlit þeirra. Sagði innanríkisráðherrann Priti Patela að vegabréfin yrðu nú, eftir útgöngu Bretlands úr ESB, aftur samofin breskri þjóðarvitund.

Netverjar hafa hæðst að þessari þróun mála, enda voru ein helsta röksemd Brexit-sinna fyrir útgöngu að tryggja Bretum störf og auka tekjurmöguleika.

Breska ríkisstjórnin birti í gær mynd af Boris Johnson forsætisráðherra þar sem hann heldur á bláu vegabréfi. Háðskur Twitter-notandi birti þá myndina með textanum: „Boris Johnson flýgur heim frá Póllandi eftir að hafa sótt nýja vegabréfið sitt.“

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×