Fótbolti

19 dagar í Rúmeníuleikinn: Yfir 1.300 milljónir króna í húfi

Sindri Sverrisson skrifar
Íslenska landsliðið hefur glatt þjóðina með því að komast tvisvar á stórmót og þannig einnig skilað háum fjárhæðum til íslenskra knattspyrnufélaga.
Íslenska landsliðið hefur glatt þjóðina með því að komast tvisvar á stórmót og þannig einnig skilað háum fjárhæðum til íslenskra knattspyrnufélaga. vísir/getty

Háar fjárhæðir eru í húfi fyrir íslenska knattspyrnu í EM-umspilinu sem karlalandsliðið er á leið í undir lok mánaðarins.

KSÍ hefur kappkostað að gera Laugardalsvöll leikhæfan fyrir leikinn mikilvæga við Rúmeníu 26. mars og kostnaðurinn við það gæti numið allt að 70 milljónum króna. Í rekstraráætlun KSÍ er gert ráð fyrir að 64 milljónir fari í verkefnið. Takist Íslandi að vinna Rúmeníu, og svo Búlgaríu eða Ungverjaland á útivelli 31. mars, kemst liðið hins vegar á EM og þá fær KSÍ margfalt hærri upphæð frá UEFA.

Þjóðir sem komast á EM fá nefnilega 9,25 milljónir evra í verðlaun frá UEFA. Það er meira en 1.300 milljónir króna.

Ísland færi í afar erfiðan riðil næði liðið á EM, með heimsmeisturum Frakka, Evrópumeisturum Portúgala og Þjóðverjum sem spila á heimavelli. Næði liðið í jafntefli eða sigur á mótinu fengi það einnig verðlaun fyrir það, og hafa upphæðirnar hækkað frá því á EM 2016 þegar Ísland komst í 8-liða úrslitin.

Fyrir sigur í riðlakeppninni fæst 1,5 milljón evra, og fyrir jafntefli fást 750.000 evrur. Lið sem komast í 16-liða úrslit fá 2 milljónir evra til viðbótar. Þau lið sem komast í 8-liða úrslit fá svo 3,25 milljónir evra fyrir það, og 5 milljónir evra í viðbót fást fyrir að komast í undanúrslit.

Silfurlið EM fær 7 milljónir evra til viðbótar við þær 24 sem liðið mun hafa tryggt sér, og Evrópumeistararnir fá samtals 34 milljónir evra fyrir sinn árangur, eða hátt í 5 milljarða króna.

KSÍ og aðildarfélög sambandsins hafa svo sannarlega notið góðs af árangri karlalandsliðsins síðustu ár, með verðlaunafénu sem það fékk í gegnum HM 2018 og EM 2016. Á síðasta ári tapaði KSÍ hins vegar 50 milljónum króna, eftir að hafa deilt 120 milljónum á milli aðildarfélaga sinna, og samkvæmt rekstraráætlun er gert ráð fyrir 65 milljóna króna tapi í ár. Sú áætlun gerir hins vegar ekki ráð fyrir því að Ísland komist á EM.


Tengdar fréttir

Hitapulsan blásin upp | „Sé enga ástæðu til að þetta klikki“

Í dag var hitadúkur lagður yfir Laugardalsvöll til að losa um frost og kulda á grasi vallarins, sem verið hefur snævi þakinn síðustu vikur. Það er mikilvægur liður í að gera völlinn kláran fyrir stórleik Íslands og Rúmeníu 26. mars í umspili um sæti á EM karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×