Úttekt Ríkisendurskoðunar um embætti ríkislögreglustjóra er lokið og hefur skýrsla verið send Alþingi til meðferðar. Vænta má þess að hún verði gerð opinber fljótlega.
Ríkisendurskoðun féllst í september á beiðni dómsmálaráðuneytisins um að gerð yrði heildarúttekt á embætti ríkislögreglustjóra. Beiðnin var lögð fram í framhaldi af ákvörðun um að Bílamiðstöð ríkislögreglustjóra yrði lögð niður en rekstur bílamiðstöðvarinnar hafði verið í miklum ólestri.
Sjá einnig: Úttekt gerð á embætti ríkislögreglustjóra í heild sinni
Ríkislögreglustjóri fagnaði úttektinni og einkum því að hún ætti að til embættisins í heild sinni. „Einkum í ljósi þeirra fjölmörgu og umfangsmiklu verkefna sem hafa verið færð til embættisins á síðustu árum,“ líkt og sagði í tilkynningu frá embættinu í september.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, hefur óskað eftir því við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að nefndin fjalli um skýrsluna en hann greindi frá þessu við upphaf þingfundar í dag. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisendurskoðun verður skýrslan gerð opinber á vef embættisins þegar málið hefur verið tekið fyrir á vettvangi Alþingis. Líklegt þyki að það verði fljótlega.
Samkvæmt upplýsingum frá formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar verður málið væntanlega á dagskrá nefndarinnar þegar nefndadagar fara fram á Alþingi í næstu viku.
Stjórnsýsluúttekt á embætti ríkislögreglustjóra tilbúin
