Albert Guðmundsson hefur jafnað sig af beinbroti í ökkla og er í byrjunarliði varaliðs AZ Alkmaar sem tekur á móti Almere City í kvöld.
Albert hefur verið frá keppni í fimm mánuði eftir að hann meiddist í leik með AZ gegn Heracles í hollensku úrvalsdeildinni. Hann er hins vegar kominn á ferðina og ætti því að koma til greina í íslenska landsliðshópinn fyrir EM-umspilið sem fram fer undir lok þessa mánaðar.
Welcome back on the pitch, @snjallbert!#JongAZ#jazalm#coybirpic.twitter.com/eFaGS83D3E
— AZ (@AZAlkmaar) March 2, 2020
Næsti leikur aðalliðs AZ er á laugardaginn gegn ADO Den Haag en liðið er í harðri baráttu um hollenska meistaratitilinn við Ajax. Liðin eru jöfn að stigum með 53 stig, sex stigum á undan Feyenoord, þegar 24 umferðum af 34 er lokið. AZ féll hins vegar úr leik í Evrópudeild UEFA í síðustu viku, með tapi gegn LASK frá Austurríki sem mætir Manchester United í 16-liða úrslitum keppninnar.