Umfjöllun og viðtöl: FH 3-2 Stjarnan | FH með mikilvæg þrjú stig

Ísak Hallmundarson skrifar
FH vann langþráðan sigur í kvöld.
FH vann langþráðan sigur í kvöld. VÍSIR/DANÍEL

FH vann afar verðmætan sigur á Stjörnunni í Kaplakrika í Pepsi Max deild kvenna í kvöld. Lokatölur 3-2 fyrir FH og var þetta aðeins annar sigur liðsins í sumar. Eftir leikinn er FH með sex stig í botnsætinu en Stjarnan í sjöunda sæti með átta stig, bæði lið í bullandi fallbaráttu.

Fyrsta mark leiksins kom á 8. mínútu, Phoenetia Maiya Lureen Browne kom heimakonum í FH yfir eftir góðan undirbúning frá Madison Santana Gonzalez.

Birta Georgsdóttir bætti við öðru marki FH á 13. mínútu með frábæru einstaklingsframtaki, keyrði inn á teig og afgreiddi boltann frábærlega í fjærhornið hægra megin úr teignum. Phoenetia skoraði svo annað mark sitt með laglegu vinstrifóta skoti utan teigs sem endaði í nærhorninu framhjá markverði Stjörnunnar.

Stjarnan minnkaði muninn á 24. mínútu þegar Aníta Ýr Þorvaldsdóttir skoraði eftir frábæra sendingu inn fyrir vörn FH frá Maríu Sól Jakobsdóttur.

Lítið markvert gerðist það sem eftir var fyrri hálfleiks og staðan í hálfleik 3-1 fyrir FH.

Gestirnir í Stjörnunni voru mun betri í seinni hálfleik og minnkuðu þær muninn á 61. mínútu þegar Shameeka Fishley skoraði með góðu skoti úr teignum. Nokkrum mínútum síðar fékk Betsy Doon Hassett fullkomið tækifæri til að jafna leikinn, fór framhjá Telmu í marki FH en skaut í hliðarnetið fyrir opnu marki.

Stjarnan var líklegri til að jafna en FH til að bæta við það sem eftir lifði leiks, en vörn FH hélt út og niðurstaðan langþráður sigur hjá Hafnfirðingum, lokatölur 3-2.

Af hverju vann FH?

FH keyrði yfir Stjörnuna fyrstu 20 mínúturnar, hlupu meira, pressuðu hátt og skoruðu þrjú mörk. Þær kláruðu eiginlega leikinn á þessum byrjunarkafla, þessi þrjú mörk dugðu til sigurs þar sem Stjarnan náði bara að koma inn tveimur mörkum.

Hverjar stóðu upp úr?

Phoenetia hjá FH, tveggja marka kona í kvöld og augljóslega framherjinn sem FH hefur vantað í allt sumar. Telma átti líka flottan leik í markinu og átti þátt í því að FH hélt forystunni allan leikinn.

Hjá Stjörnunni voru Shameeka og María Sól bestar, Shameeka var öflug frammi og skapaði fullt af færum og María átti góðan leik.

Hvað gekk illa?

Stjarnan spilaði hræðilega fyrstu 20 mínúturnar og fékk á sig mark úr hverju einasta færi FH. Þær voru betri aðilinn síðustu 70 mínútur leiksins en það dugði ekki til, hræðileg byrjun eyðilagði leikinn.

Hvað gerist næst?

FH á útileik við Selfoss næsta laugardag. Stjarnan fær ÍBV í heimsókn á sama tíma.

Árni Freyr Guðnason: Erum með hrikalega gott lið

Árni Freyr Guðnason, þjálfari FH sagðist hrikalega sáttur með langþráðan sigur. Hann segir nýjan framherja liðsins hafa gert gæfumuninn en liðið skoraði jafnmörg mörk í þessum leik og það hafði skorað fram að leiknum.

,,Við erum komin með senter sem skoraði tvö hrikalega góð mörk og Birta skoraði frábært mark líka, það munar, okkur hefur vantað senter sem getur haldið boltanum uppi og komið með liðið framar á völlinn, því við erum með hrikalega gott lið og sérstaklega vel spilandi,‘‘ sagði Árni.

FH byrjaði leikinn af miklum krafti fyrstu 20 mínúturnar og yfirspilaði Stjörnuna en eftir það stýrði Stjarnan leiknum.

,,Ég var mjög ánægður með fyrstu 20-25 mínúturnar, þangað til þær skora markið. Eftir það grípur kannski einhver smá örvænting, við erum ekki búin að vinna marga leiki í sumar og erum í erfiðri stöðu og vildum halda þetta út í stað þess að skora fleiri mörk. Ég er bara hrikalega ánægður með liðið og sérstaklega nýja leikmanninn, Phoe, sem er hrikalega öflug og það sést alveg þegar þú færð svona góðan leikmann hvað hinir leikmennirnir sem ýmsir sérfræðingar vildu senda heim voru heldur betur góðir í dag.

Kristján Guðmundsson: Botnfraus allt saman

,,Það eru þessir kaflar í leikjunum sem skipta svo miklu máli. FH átti sinn besta kafla á fyrstu 20 mínútunum og skoraði þrjú mörk. Ég þarf að skoða hvað gerðist eiginlega þar, við vissum að þær myndu stilla svona upp gagnvart markspyrnunum okkar og vorum búin að æfa hvernig við ætluðum að spila út úr því, en það einhvernveginn botnfraus allt saman,‘‘ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir leik.

,,Síðan bara eigum við leikinn með húð og hári og eigum auðveldlega að vinna hann. En við skoruðum bara tvö mörk, áttum möguleika á að skora fleiri en nýttum ekki færin. Þrjú fyrstu skotin fara í markið, sem við fáum á okkur, það er svolítið sagan okkar í sumar. Síðan komum við til baka og sköpum fleiri færi en til að skora tvö mörk og það á að duga en það gerir það ekki. Það gerir það bara einhverntímann næst, þetta kemur allt saman,‘‘ sagði Kristján að lokum nokkuð léttur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira