Innlent

Lægð nálgast úr suðvestri

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það má búast við roki og rigningu vestan til á morgun, þó vonandi ekki í ætt við þessa mynd.
Það má búast við roki og rigningu vestan til á morgun, þó vonandi ekki í ætt við þessa mynd. Vísir/vilhelm

Í dag er spáð fremur hægri suðvestlægri átt með lítilsháttar vætu hér og þar, en þurru og björtu veðri á Suðausturlandi, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Í kvöld snýst hins vegar í suðlægari átt með rigninu um vestanvert landið.

Á morgun nálgast lægð úr suðvestri og við það bætir í suðaustlæga átt og rigningu vestantil eftir því sem líður á daginn.

Búast má við allt að 18 m/s við suðvesturströndina og á Faxaflóa annað kvöld. Um austanvert landið er útlit fyrir bjartara veður í hægari suðlægri átt.

Veðurhorfur á landinu

Fremur hæg suðvestlæg eða breytileg átt. Skýjað með köflum og lítilsháttar væta af og til, en þurrt að kalla á Suðausturlandi. Þokuloft við austurströndina. Snýst í sunnan 3-8 m/s með rigningu vestanlands í kvöld en léttir heldur til eystra. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast suðaustantil.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:

Suðaustan 8-15 m/s og rigning, einkum sunnan- og vestantil, með hita 9 til 13 stig. Hægari suðlæg átt norðaustanlands, úrkomulítið og hiti 12 til 18 stig að deginum.

Á mánudag:

Suðaustan 3-8 m/s, en hvassari við austurströndina. Rigning í flestum landshlutum, einkum á Suðausturlandi. Hiti 10 til 16 stig.

Á þriðjudag:

Norðlæg átt 3-8 m/s norðvestantil, annars hæg breytileg átt. Rigning með köflum og kólnar heldur.

Á miðvikudag:

Vaxandi norðaustanátt og fer að rigna, einkum um sunnan- og austanvert landið. Hiti 6 til 13 stig, hlýjast suðvestantil.

Á fimmtudag:

Útlit fyrir norðanátt með rigningu og svölu veðri norðanlands, en mildari og úrkomulítið sunnan heiða.

Á föstudag:

Snýst líklega í vestlæga átt og dregur úr úrkomu með hita á bilinu 4 til 10 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×