Katrín Tanja Davíðsdóttir er komin í úrslit á heimsleikunum eftir frábæra frammistöðu um síðustu helgi. Æfingafélagi hennar Tori Dyson málar mjög fallega mynd af íslensku stórstjörnunni sem fær mikið hrós frá henni fyrir að hugsa vel um fólkið í kringum sig.
Katrín Tanja Davíðsdóttir er tvöfaldur heimsmeistari og ein allra stærsta stjarnan í sögu CrossFit íþróttarinnar. Það er hins vegar ekki hægt að finna hjá henni neina stjörnustæla sem sést vel á miklu hrósi sem hún fær frá CrossFit konu sem eyddi miklum tíma með henni í undirbúningi heimsleikanna.
Katrín Tanja Davíðsdóttir hefur þurft að vera án fjölskyldu sinnar síðan í janúar en hún hefur líka myndað sterk tengsl út í Bandaríkjunum. Þetta sést vel á þeim fallegu oðrum sem æfingafélagi hennar Tori Dyson skrifaði um Katrínu Tönju á samfélagsmiðlum.
„Kat er þekkt fyrir að vera tvöfaldur heimsmeistari og hún er líka nýorðin fjórða hraustasta CrossFit kona heims en hér á bæ er hún svo miklu meira en það,“ skrifaði Tori Dyson á Instagram-síðu sína.
„Ég held því fram að hennar ofurkraftur er að láta alla í kringum hans finnast þeir vera mikilvægir,“ skrifaði Tori Dyson.
„Henni tekst að vera í fullu sambandi við fjölskyldu og vini út um allan heim og jafnvel þó að það séu mánuðir síðan hún sá þau síðast,“ skrifaði Dyson en það má sjá pistil hennar hér fyrir neðan.
„Hún setur sjálfa sig aldrei ofar öðrum og trúir á fólkið í kringum hana jafnvel meira en sig sjálfa. Hún vaknar á hverjum degi og finnur leiðir til að gera daginn í dag betri en gærdaginn. Við fáum að fylgja henni í þessu ferðalagi,“ skrifaði Tori Dyson.
„Hún leitar að því góða í öllum aðstæðum og verður mjög spennt þegar hún veit um eitthvað þar sem hún getur bætt sig í. Hún trúir því líka að ef einhvern annar getur gert þetta þá getur hún það líka. Það er enginn sem leggur meira á sig en hún er líka alltaf til í að taka þátt í léttu danspartý á milli æfinga,“ skrifaði Tori Dyson.
„Hún segir við gerðum þetta, við erum tilbúin eða við unnum en aldrei ég. Hún er ótrúlegur vinur, fjölskyldumeðlimur og um fram allt góð manneskja. Hún er með hjarta úr gulli og fyrir það á hún skilið að eignast allan heiminn,“ skrifaði Tori Dyson og óskaði Katrínu til hamingju með árangurinn um leið og hún hvatti hana áfram í æfingatörninni sem er nú fram undan.
Ofurúrslit heimsleikanna hefjast eftir aðeins fjórar vikur og Katrín Tanja ætlar að gefa allt sitt í æfingarnar næstu vikurnar. Katrín Tanja og Tori Dyson hófu æfingar í gær eins og sjá má hér fyrir neðan.