Fótbolti

Vilja hátt verð fyrir Mikael með EM í huga

Sindri Sverrisson skrifar
Mikael Anderson á æfingu íslenska landsliðsins fyrir leikinn við England í byrjun þessa mánaðar.
Mikael Anderson á æfingu íslenska landsliðsins fyrir leikinn við England í byrjun þessa mánaðar. VÍSIR/VILHELM

Dönsku meistararnir í Midtjylland vilja fá andvirði 240 milljóna íslenskra króna fyrir landsliðsmanninn Mikael Anderson sem þeir telja geta hækkað duglega í verði komist hann með Íslandi á EM í fótbolta næsta sumar.

Þetta segir í frétt hjá Ekstra Bladet. Annað danskt úrvalsdeildarfélag, AGF, hefur reynt að fá Mikael frá Midtjylland með það í huga að greiða á bilinu 45-65 milljónir íslenskra króna. Það er langt frá verðhugmyndum Midtjylland eins og fyrr segir og því útlit fyrir að viðræðurnar nái ekki lengra.

Ekstra Bladet segir að Midtjylland vilji frekar lána Mikael en selja hann á lægra verði, í ljósi þess hve hann geti hækkað í verði vegna EM.

Mikael er uppalinn hjá Midtjylland en hefur farið að láni til Vendsyssel og til Excelsior í Hollandi. Hann varð danskur meistari með liðinu á síðustu leiktíð, og er með samning við félagið sem gildir til sumarsins 2023.

Mikael á að baki 6 A-landsleiki og verður líklega í landsliðshópnum sem mætir Rúmeníu, Danmörku og Belgíu í október, en hópurinn verður tilkynntur á föstudaginn. Leikurinn við Rúmeníu ræður því hvort Ísland á enn möguleika á að komast á EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×