Áætlanir KSÍ gera ráð fyrir því að verði sóttvarnareglum á Íslandi ekki breytt á næstu dögum muni um 1.500 manns fá að sitja í stúkunum á Laugardalsvelli í komandi landsleikjum.
Þetta sagði Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, við Vísi í dag.
UEFA gaf í gær grænt ljós á það að áhorfendur yrðu á landsleikjum á vegum sambandsins, eftir að hafa bannað það vegna kórónuveirufaraldursins. UEFA leyfir að 30% sætafjölda sé nýttur fyrir áhorfendur á leikjum, sem í tilviki Laugardalsvallar þýðir að 2.940 mættu mæta.
Hins vegar gilda sóttvarnareglur í hverju landi fram yfir reglur UEFA, að sjálfsögðu. Gæta þarf að eins metra reglu á Íslandi og að ekki séu fleiri en 200 manns í hverju hólfi. Hugsanlegt er að þessar reglur verði hertar á næstu dögum. Þess vegna er ekki gert ráð fyrir að fleiri en 1.500 manns komist á landsleikina.
Íslenska karlalandsliðið mætir Rúmeníu á fimmtudaginn eftir viku, í undanúrslitum EM-umspilsins, og svo Danmörku og Belgíu 11. og 14. október í Þjóðadeildinni.
Klara segir að miðasala hefjist eftir helgi og munu ársmiðahafar hafa forgang fram yfir aðra. Þeir eru að sögn Klöru fleiri en 1.500 talsins.