Körfubolti

Sue Bird WNBA meistari á þremur mismunandi áratugum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sue Bird gengur með WNBA bikarinn framhjá kærustu sinni Megan Rapinoe sem fagnar sinni konu.
Sue Bird gengur með WNBA bikarinn framhjá kærustu sinni Megan Rapinoe sem fagnar sinni konu. AP/Chris O'Meara

Sue Bird og félagar hennar í Seattle Storm liðinu tryggðu sér í nótt WNBA meistaratitilinn eftir öruggan sigur á Las Vegas Aces í þriðja úrslitaleik félaganna.

Þetta var annar meistaratitill Seattle Storm á þremur árum og líkt og síðast þá var Breanna Stewart var valin mikilvægasti leikmaður úrslitanna. Breanna Stewart missti af 2019 tímabilinu af því hún sleit hásin.

Seattle Storm sópaði ekki bara Las Vegas Aces liðinu út úr úrslitakeppninni heldur vann líka lokaleikinn með 33 stigum eða 92-59.

Breanna Stewart skoraði 26 stig í lokaleiknum en hún hækkaði meðaltöl sín frá 19,7 stigum, 8,3 fráköstum og 3,6 stoðsendingum í leik í deildarkeppninni upp í 25,7 stig, 7,8 fráköst og 4,0 stoðsendingar í leik í úrslitakeppninni.

Þetta var líka merkilegur áfangi fyrir leikstjórnandann Sue Bird sem heldur upp á fertugsafmælið sitt í næstu viku.

Sue Bird var með 11 stoðsendingar að meðaltali í leik í úrslitaeinvíginu en hún setti met með því að gefa sextán stoðsendingar í fyrsta leiknum.

Þetta var fjórði meistaratitill Sue Bird með liði Seattle Storm og hún var líka að ná því að verða WNBA meistari á þriðja mismunandi áratugnum. Hinir titlarnir hennar komu 2004, 2010 og 2018. Sue Bird hefur verið í deildinni í nítján ár en missti reyndar af tveimur tímabilum vegna meiðsla.

Seattle Storm liðið hefur unnið unnið ellefu leiki í röð í úrslitaeinvíginu sem er ótrúleg tölfræði.

Sue Bird, sem er kærasta bandarísku fótboltakonunnar Megan Rapinoe, er ekki búin að ákveða það hvort hún spili áfram á næsta tímabili.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×