Anthony Davis tileinkaði Kobe Bryant heitnum NBA-meistaratitilinn sem Los Angeles Lakers vann í nótt.
Lakers sigraði Miami Heat, 106-93, í nótt og tryggði sér þar með sigur í úrslitaeinvíginu, 4-2. Þetta er fyrsti meistaratitilinn Lakers síðan 2010 þegar Kobe var aðalmaðurinn í liðinu. Kobe og dóttir hans, Gianna, fórust í þyrluslysi í janúar á þessu ári.
„Allt frá harmleiknum vildum við gera þetta fyrir hann og við brugðumst honum ekki,“ sagði Davis eftir leikinn í nótt.
Lakers lék í sérstökum „Black Mamba“ búningi sem Kobe hannaði í fimmta leiknum í úrslitunum sem Miami vann.
„Það hefði verið frábært að klára þetta í síðasta leik í treyjunni hans. Í staðinn vorum við enn ákveðnari og kröftugri á báðum endum vallarins og kláruðum dæmið,“ sagði Davis.
„Ég veit að hann [Kobe] er stoltur af okkur. Vanessa [Bryant, ekkja Kobes] er stolt af okkur, félagið er stolt af okkur. Þetta skiptir miklu máli.“
Davis skoraði nítján stig og tók fimmtán fráköst í leiknum í nótt. Hann kom til Lakers frá New Orleans Pelicans í fyrra og varð meistari á sínu fyrsta tímabili með Kaliforníuliðinu.