Elías Már Ómarsson hefur verið vægast sagt sjóðandi heitur í upphafi tímabils með liði sínu Excelsior sem leikur í hollensku B-deildinni. Elías Már hefur skorað meira en mark að meðaltali í leik þegar þetta er skrifað. Skoraði hann sitt níunda mark í aðeins átta leikjum er Excelsior lagði Maastricht 2-0 í kvöld.
Eftir markalausan fyrri hálfleik í þá gerðu heimamenn út um leikinn á fyrstu tíu mínútum síðari hálfleiks. Julian Baas kom liðinu yfir á 52. mínútu og aðeins þremur mínútum síðar skoraði Elías Már. Eitthvað sem ætti ekki að koma neinum á óvart en drengurinn getur vart reimað á sig takkaskó þessa dagana án þess að koma knettinum í netið.
Lokatölur í kvöld því 2-0 og Excelsior stekkur upp í 8. sæti deildarinnar.