Starfsmannastjóri Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, og að minnsta kosti tveir aðrir starfsmenn Hvíta hússins greindust smitaðir af kórónuveirunni í gær. Sýni úr Pence sjálfum er sagt hafa verið neikvætt og ætlar hann að halda áfram ferðalögum í kosningabaráttunni.
Skammt er síðan Donald Trump forseti, Melania forsetafrú, sonur þeirra og á þriðja tug ráðgjafa forsetans og starfsmanna Hvíta hússins smituðust af veirunni. Að þessu sinni er það Marc Short, skrifstofustjóri Pence, sem greindist smitaður. Hann hefur leikið stórt hlutverk í starfshópi Hvíta hússins vegna faraldursins og hefur talað gegn ströngum sóttvarnaráðstöfunum.
Short er sagður finna fyrir einkennum og kominn í einangrun. Marty Obst, einn nánasti pólitíski ráðgjafi Pence utan Hvíta hússins, er einnig smitaður en hann hefur ferðast með varaforsetanum, að sögn Washington Post.
Þrátt fyrir að Pence sé talinn hafa verið í nánum samskiptum við Short ætlar hann ekki að fara í sóttkví heldur halda áfram að ferðast á kosningafundi næstu daga, að sögn Devins O‘Malley, talsmanns varaforsetans. Pence hafi ákveðið það „í samráði við læknalið Hvíta hússins“ og í samræmi við leiðbeiningar Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna (CDC) um nauðsynlega starfsmenn.
Leiðbeiningar CDC um nauðsynlega starfsmenn, sem Pence er, kveða á um að þeir sem hafa verið útsettir fyrir smiti skuli fylgjast grannt með einkennum og nota grímu í kringum annað fólk.

Smitsjúkdómasérfræðingur sem AP-fréttastofan ræddi við furðar sig á að Pence ætli að halda áfram kosningabaráttu og ferðalögum. Það sé „gróf vanræksla“.
„Þetta er bara móðgun við alla þá sem hafa unnið að lýðheilsu og heilbrigðisaðgerðum. Mér finnst það líka virkilega skaðlegt og virðingarleysi fyrir fólki sem fer á kosningafundina,“ segir Saskia Popescu frá George Mason-háskóla sem telur að Pence ætti að halda sig heima í fjórtán daga.
Trump forseti sagðist telja að Pence ætlaði í sóttkví þegar fréttamenn spurðu hann út í smitin í Hvíta húsinu. Samkvæmt dagskrá varaforsetans á hann að koma fram á kosningafundi í Kinston í Norður-Karólínu í dag.
Kórónuveirusmitum fer nú fjölgandi í Bandaríkjunum og var slegið met yfir ný smit á einum degi á föstudag þegar fleiri en 82.000 manns greindust smitaðir. Trump heldur engu að síður áfram að gera lítið úr faraldrinum og fullyrða að hann sé í rénun á kosningafundum sínum.
"That's all I hear about now. Turn on TV, 'Covid, Covid, Covid Covid Covid.' A plane goes down, 500 people dead, they don't talk about it. 'Covid Covid Covid Covid.' By the way, on November 4th, you won't hear about it anymore ... 'please don't go and vote, Covid!'" -- Trump pic.twitter.com/1bh7x2RSTy
— Aaron Rupar (@atrupar) October 24, 2020