Leikmaður kvennaliðs Þórs/KA í fótbolta er smitaður af kórónuveirunni. Þetta fékkst staðfest í gærkvöldi.
Umræddur leikmaður var síðast á æfingu ásamt samherjum sínum og þjálfurum á föstudaginn. Hún fann fyrir einkennum um helgina og fór í kórónuveirupróf í gær sem reyndist jákvætt.
Eftir að það lá fyrir voru gerðar allar nauðsynlegar varúðarráðstafanir varðandi þá leikmenn og þjálfara sem umgengust hana dagana fyrir veikindin að því er fram kemur á heimasíðu Þórs.
Í dag fara leikmenn og þjálfarar Þórs/KA í skimun og verða í úrvinnslusóttkví þangað til.
Þór/KA á að mæta KR á Meistaravöllum í 17. umferð Pepsi Max-deildar kvenna sunnudaginn 8. nóvember. Þór/KA er í 7. sæti Pepsi Max-deildarinnar með átján stig, tveimur stigum frá fallsæti.