Birkir Bjarnason er kominn á gott ról eftir að hafa meiðst undir lok leiks gegn Belgíu á Laugardalsvelli 14. október. Hann er klár í úrslitaleikinn við Ungverja eftir viku.
Birkir hefur ekkert spilað með liði sínu Brescia á Ítalíu eftir að hann meiddist í ökkla í lokin á leiknum við Belgíu. Hann bar þá fyrirliðabandið og lék 90 mínútur í þriðja landsleiknum í röð á einni viku.
„Ég er búinn að ná mér af ökklameiðslunum og er búinn að æfa á fullu síðustu tíu daga. Ég fékk reyndar smáhögg á ökklann daginn fyrir leikinn um síðustu helgi en ég er klár í slaginn,“ sagði Birkir við Vísi.
Það er því hugsanlegt að Birkir spili með Brescia gegn Cosenza á laugardaginn í síðasta leiknum fyrir landsleikjahléið.

Jóhann Berg Guðmundsson missti af missti af síðasta leik Burnley, 3-0 tapi gegn Chelsea síðastliðinn laugardag, vegna meiðsla í kálfa. Hann hafði þá byrjað síðustu tvo leiki Burnley.
Að sögn Sean Dyche, knattspyrnustjóra Burnley, er enn óvíst hvort Jóhann verði klár í slaginn gegn Brighton á morgun, vegna meiðslanna.
Búast má þó við því að Birkir og Jóhann verði báðir í landsliðshópi Íslands sem Erik Hamrén tilkynnir um hádegisbil á morgun. Íslenski hópurinn kemur saman í Augsburg í Þýskalandi á mánudaginn og leikur svo við Ungverja í Búdapest fimmtudaginn 12. nóvember.

Leikur Ungverjalands og Íslands verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 fimmtudaginn 12. nóvember klukkan 19.45 en upphitun hefst klukkan 18.45. Áskrift er hægt að kaupa hér en einnig verður í boði að kaupa stakan viðburð á myndlyklum Vodafone og Símans á kr. 990, sem og í vefsjónvarpi Stöðvar 2.