Skoðun

Um mann­réttindi og mis­notkun þeirra

Kolfinna Baldvinsdóttir skrifar

HVAÐ ER TIL RÁÐA, þegar sjálfskipaður ritdómari (sjá Ingi Freyr Vilhjálmsson, Stundin, 13. nóv – 3.des., 2020) leyfir sér að fara rangt með allar lykilstaðreyndir í umfjöllun sinni um nýútkomna bók móður minnar „Brosað gegnum tárin“? Og ályktanir hans eru eftir því – útúrsnúningur og öfugmæli. Freistandi væri að leiða þetta hjá sér í von um að athugulir lesendur sjái í gegnum blekkingarnar. En það er valt að treysta því. Hrekklausir lesendur gætu glapist til að trúa, og þá væri tilgangi niðrunarinnar náð.

Af tvennu illu er trúlega skárra að hafa fyrir því að leiðrétta helstu rangfærslurnar, fremur en að leyfa þeim að standa athugasemdalaust. Og verður maður ekki að reyna að trúa á hið góða í manninum? Vonandi lætur ritdómarinn sér þetta að kenningu verða og reynir að bæta ráð sitt framvegis. Er það til of mikils mælst?

Hér koma þá helstu leiðréttingarnar:

Misheppnuð samlíking

Ritdómarinn ver meginmáli sínu í að reyna að sannfæra lesandann um, að móður minni sé líkt farið og hinni sænsku „drottningu ljóðsins“, Katarinu Frostenson, í því að hún sé staurblind á meintar ávirðingar manns síns, en eiginmaður hinnar síðarnefndu var fyrir skömmu sakaður um kynferðislega áreitni við konur í kringum sænsku akademíuna. En það þarf ekki að lesa lengi til að fá það staðfest, að Svíinn var, að lokinni lögreglurannsókn, dæmdur til „fangelsisdóms fyrir tvær nauðganir“.

Þar með fellur samlíkingin um sjálfa sig. Faðir minn hefur aldrei verið dæmdur fyrir slíkan glæp. Aðförin að mannorði foreldra minna er rekin í fjölmiðlum, einmitt vegna þess, að kærum til lögreglu og saksóknara hefur jafnharðan verið vísað frá – reyndar alls fimm sinnum á næstum 20 árum. Þar með er botninn dottinn úr samlíkingunni, sem átti að gefa ritdómnum alþjóðlega vídd. Samanburðurinn stenst ekki – hann er út í hött.

Sakargiftum svarað

Ritdómarinn sjálfskipaði fullyrðir, oftar en einu sinni, að það standi upp á föður minn sjálfan og móður í bók sinni að svara framkomnum sakargiftum. Manni verður orða vant. Veit maðurinn virkilega ekki betur? Eða skipta staðreyndir málsins, sem hann þykist vera að upplýsa aðra um, engu máli?

Í bók móður minnar (sjá bls. 205) segir:

„Jón Baldvin hefur þegar svarað öllum þeim, sem borið hafa hann sökum undir nafni (sjá www.jbh.is). Þar með getur hver og einn dæmt fyrir sig.“ Þar er m.a. að finna nýlegt bréf frá fyrrverandi nemanda í MÍ, sem hrekur afdráttarlaust gróusögur vinkonu Aldísar um skólameistarann fyrrverandi. Þar er líka að finna eiðsvarinn vitnisburð eina óhlutdræga vitnisins,sem var viðstatt“ veisluna á þakinu“ í Salobreña, sem segir, að ásakanir um kynferðislega áreitni þar og þá séu: „Hreinn tilbúningur og tómt rugl“.

Meiðyrðamál

Það hefur þá líka farið framhjá ritdómaranum, að faðir minn hefur leitað til Vilhjálms H.Vilhjálmssonar, hrl. um að stefna RÚV, fréttamönnum þess – og Aldísi Schram til vara sem heimildarmanni – fyrir meiðyrði. Þar er um að ræða hápunktinn á aðför Aldísar Schram að mannorði föður okkar, en í viðtalinu – sem fréttamenn birtu athugasemdalaust – sakaði hún hann m.a. um að hafa misnotað dætur sínar þrjár í æsku. Og að hafa framið sifjaspell með henni sjálfri, þegar hún var vistuð á geðdeild.

Áður en stefnu var lýst, var Aldísi skriflega boðið að stefnan yrði látin niður falla, ef hún drægi þessar ósönnu og ærumeiðandi fullyrðingar til baka og bæðist afsökunar. Vitnin eru þrjú: Við dæturnar þrjár Aldís, Snæfríður og ég. Af okkur þremur hefur engin okkar farið jafn lofsamlegum orðum um föður sinn og elsta systir mín Aldís. „Ég þekki ekki föður minn í þeirri mynd, sem fjölmiðlarnir draga upp af honum: refur, óheiðarlegur, hrokagikkur...akkúrat það sem hann er ekki, hann er hlýr, skilningsríkur....“ sagði hún eitt sinn í viðtali.

Nú er það hún sjálf sem dregur upp þessa mynd af föður sínum, sem hún áður dáði svo mikið. Snæfríður sendi Aldísi bréf (bls.197 – 98) sem tekur af öll tvímæli um þann sjúklega rógburð hennar. Þar segir:

„Áður en á það reynir, getur þú reynt að bæta fyrir þann skaða, sem þú hefur þegar valdið saklausum einstaklingum, með því að biðjast fyrirgefningar. Og lofa upp á æru og trú, að þú munir framvegis og hér með láta af þessari iðju. Þá værir þú maður að meiri“.

Af einhverjum ástæðum hafa fjölmiðlar aldrei séð ástæðu til að leita álits annarra fjölskyldumeðlima á þessum svívirðilegu ásökunum. Ég hef ekki fengið eitt einasta símtal frá þeim blaðamönnum sem veigra sér ekki við að fella dóma á síðum blaða þeirra.

„Uppspuni frá rótum“

Samt fer því víðs fjarri, að faðir minn hafi látið söguburði hinna ónafngreindu kvenna ósvarað. Að því er vikið í bók móður minnar (sjá bls. 205), en sjálfur hefur faðir minn svarað hinum ónafngreindu í blaðagrein (Mbl. 070920). Þar segir hann:“

„Í upphafi taldi ég mig vera varnarlausan, líkt og jafnan er um þá, sem vegið er að úr launsátri. En við nánari skoðun kom á daginn, að unnt var að sannreyna eina söguna út frá stund og stað. Sú saga reyndist vera hreinn skáldskapur.

Sögusviðið var sagt vera Ráðherrabústaðurinn við Tjarnagötu. Árið var tilgreint 1996. Sakborningur var sagður hafa verið sauðdrukkinn. Undir veislulok er hann sagður hafa kallað yfir salinn: „Mig vantar kvenmann“ (gott að hann sagði ekki „mér vantar“!) Þegar ekki var orðið við þessum óskum, á hann að hafa ruðst fram í eldhús og áreitt þar unga stúlku undir lögaldri. Yfirmaður staðarins á að lokum að hafa skorist í leikinn og vísað dólgnum á dyr.

Ég vissi fyrir víst, að ég hafði ekki stigið fæti inn fyrir dyr á Ráðherrabústaðnum árum saman, eftir að ég lét af störfum sem utanríkisráðherra árið1995. Ég spurði veisluhöld ríkisins, sem annaðist veitingar þar á þessum árum, hvort hann gæti staðfest þetta.Vottfest svar hans hljóðar svo:

„Að gefnu tilefni vil ég, undirritaður veisluhöldur ríkisins í Borgartúni og Ráðherrabústað, taka fram eftirfarandi:

(1)  Jón Baldvin Hannibalsson var aldrei gestur í Ráðherrabústað á umræddu ári og þar af leiðandi aldrei vísað þaðan út.

(2)  Enginn starfsmanna minna kannast við umrædda frásögn.

(3)  Enginn í starfsliði mínu var undir lögaldri.

Sagan virðist því vera uppspuni frá rótum.

11.02.19

Elías Einarsson (sign.)“

Þá vitum við það.

Þetta vekur upp ýmsar áleitnar spurningar: Hefur MeToo-hreyfingin lagt nafn sitt við ærumeiðandi uppspuna af þessu tagi? Hver hefur umboð hreyfingarinnar til að tala í hennar nafni? Er það Aldís Schram, sem stefnt hefur verið fyrir dóm fyrir ærumeiðandi ósannindi? Er það Carmen Jóhannsdóttir, sem óhlutdrægt vitni segir að fari með „hreinan tilbúning og tómt rugl“. Lögmaður okkar tjáir okkur, að þegar hann reyndi að ná sambandi við þann #metoo-hóp sem Aldís stendur fyrir, hafi Carmen þessi verið til svara. Loks hlýtur maður að spyrja sjálfan sig: gegnir sama máli um allar hinar ónafngreindu? Svarið við þeirri spurningu er þetta:

Vandleg skoðun og könnun á staðreyndum og sannleiksgildi fullyrðinga leiðir í ljós, að tólf af sextán þessara frásagna eru sannanlega uppspuni eða fá ekki staðist af öðrum þar til greinum ástæðum.

Hinar fjórar, sem eftir standa, eiga það sammerkt, að þar er ekkert sem hönd á festir, hvorki hvar né hvenær eða hverjar eigi í hlut. Um það gildir hið sama og sagði í frávísun lögreglustjóraembættisins í október 2013, að söguburður af þessu tagi er „ómarktækur“. En það er líka ekkert, sem gefur ástæðu til að ætla, að sannleiksgildið sé annað og meira en hjá hinum.

Hvað stendur þá eftir?

Svar: HATUR OG HEFNIGIRNI.

Eftir ótal sáttatilraunir sneri móðurbróðir minn til baka með þessi skilaboð: „Sáttatilraunir – þið getið gleymt því. Ykkur mætir ekkert nema svartnætti af hatri“.

Niðurstaða: Öfugt við það, sem ritdómarinn fullyrðir hefur öllum sakargiftum, nafngreindum jafnt sem nafnlausum, verið svarað, utan fjórum, sem Rannsóknarlögreglan úrskurðaði á sínum tíma ómarktækar og vísaði frá.

#METOO og mannréttindin

Metoo-hreyfingin spratt upp á sínum tíma sem mennréttindahreyfing. Hún fór sem slík sigurför um heiminn. Konur, sem höfðu mátt sæta kúgun og ofbeldi, andmæltu þöggun og sögðu kvölurum sínum tíl syndanna. Málstaður þeirra fann djúpan hljómgrunn. Þetta var mannréttindabarátta, sem skírskotaði til réttlætiskenndar allra – karla ekki síður en kvenna.

Um líkt leyti og ritstjóri Stundarinnar, Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, hóf aðför sína að mannorði foreldra minna, og m.a.s. fréttamenn Ríkisútvarpsins tóku undir athugasemdalaust, birtu Stígamót sína árlegu skýrslu um þolendur kynferðirofbeldis, sem til þeirra höfðu leitað á árinu 2018. Þar kom m.a. fram eftirfarandi:

321 kona sagðist hafa orðið fyrir nauðgun eða nauðgunartilraun og 127 sögðust vera þolendur sifjaspella. M.ö.o. 448 konur leituðu sér hjálpar vegna grófra ofbeldisverka, sem þær höfðu orðið fyrir, að eigin sögn“. Það náði í fréttirnar þann daginn – en síðan ekki söguna meir.

Stöldrum við. Þessar tölur um stöðu raunverulegra þolenda kynferðirofbeldis segja okkur meira en mörg orð um grafalvarlega þjóðfélagsmeinsemd, sem þarf að uppræta með öllum tiltækum ráðum – í nafni mannréttinda.En ef þær sem ganga fram undir merkjum #metoo-hreyfingarinnar, gera sig sekar um að ljúga upp sögum um saklaust fólk – eins og hér hafa verið nefnd vottfest dæmi um – þá eru þær ekki einungis að grafa undan málstað raunverulegra þolenda kynferðisofbeldis; þær eru sjálfar orðnar að ógn við málstað mannréttinda í réttarríki, einatt með skelfilegum afleiðingum: ærumissi saklauss fólks, atvinnubanni og félagslegri útskúfun að ósekju.

Það er kominn tími til, að ákæruvaldið grípi í taumana til varnar mannréttindum.

Í bók móður minnar segir (bls. 214):

„Mér finnst það reyndar grafalvarlegt mál, að fjölmiðlar yfir höfuð taki sér það vald að dæma í málum fyrirfram, sem þeir hafa enga þekkingu á. Sérstaklega þegar kemur að ofurviðkvæmum forræðisdeilum, þar sem heill og hamingja barna og fjölskyldna er í húfi“.

Hvað þá heldur, þegar málið á rætur að rekja til geðrænna vandamála, sem kynda undir eldum haturs og hefnigirni. Um það segir í bókinni (bls. 193):

Þær fjölskyldur eru ófáar í okkar samfélagi, sem hafa mátt þola það sama og við: Einhver meðlimur fjölskyldunnar á við andleg veikindi að stríða, kennir sínum nánustu um og beinir hatri sínu og óvild að þeim“.

Ég geri eftirfarandi orð móður minnar að lokaorðum mínum:

„Ég viðurkenni, að ég á erfitt með að líta það fólk réttu auga, sem er reiðubúið að notfæra sér fjölskylduharmleik af þessu tagi í eiginhagasmunaskyni eða til að koma fram pólitískum hefndum. Ef það er ekki níðingsverk, þá veit ég ekki hvað það er“.

Er nokkru við þetta að bæta?

Höfundur er framkvæmdastjóri HB-útgáfu, sem gefur út bók Bryndísar „Brosað gegnum tárin“. Hún hefur MA gráðu í samtímasögu frá the American University í Washington D.C. og LLM-gráðu í mannréttindalögum frá Háskólanum í Kent, Canterbury.




Skoðun

Sjá meira


×