Í tilkynningu frá Eat Just sagði að nú væri búið að opna dyr inn í framtíð þar sem ekki þarf að slátra einu einasta dýri fyrir kjöt.
Tugir annarra fyrirtækja vinna nú í því að þróa sams konar vöru, til að mynda úr svína- eða nautaprótíni. Markmiðið er bæði að draga úr loftslagsbreytingum og slátrun.
Samkvæmt The Guardian er um 130.000.000 kjúklingum slátrað á dag fyrir kjöt og um fjórum milljónum svína.
Í frétt breska miðilsins segir sömuleiðis að rannsóknir hafi sýnt fram á að íbúar í ríkari ríkjum borði meira kjöt en þeim er hollt og að það hafi skaðleg áhrif á loftslag jarðar.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, tók tíðindunum fagnandi á Facebook. Hann hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verði falið að kanna stöðu kjötræktar og skipuleggja aðgerðaáætlun um „innleiðingu tækni fyrir íslenskan landbúnað með það að markmiði að flýta fyrir því að kjötrækt verði samkeppnishæf“.