Tveir þingmenn Repúblikana telja Trump hafa borið sigur úr bítum í kosningunum þrátt fyrir engar sannanir þess efnis. 220 þingmenn úr fulltrúadeildinni og öldungadeildinni, um 88 prósent allra þingmanna flokksins, vilja ekki gefa upp afstöðu sína til úrslita kosninganna.
Washington Post gerði könnun meðal allra 249 þingmanna Repúblikana í kjölfar furðulegs þriggja stundarfjórðunga langs ávarp sem Trump birti á samfélagsmiðlum á miðvikudag. Trump endurtók framandlegar og stoðlausar ásakanir um stórfelld kosningasvik í forsetakosningunum. Hann hélt því meðal annars fram á fjarstæðukenndan hátt að hann hefði í raun „unnið auðveldlega“ í öllum ríkjum.
Lýsti ræðunni sem sinni mikilvægustu
Trump hefur neitað að viðurkenna ósigur og reynt að hnekkja úrslitunum í fjölda lykilríkja fyrir dómstólum. Hann og bandamenn hans hafa haldið fram stoðlausum ásökunum um að stórfelld kosningasvik hafi kostað hann sigurinn. Þeir hafa ekki lagt fram neinar trúverðugar sannanir fyrir þeim ásökunum.
Statement by Donald J. Trump, The President of the United States
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) December 2, 2020
Full Video: https://t.co/EHqzsLbbJG pic.twitter.com/Eu4IsLNsKD
Fráfarandi forsetinn hjó enn í sama knérunn í ávarpanu sérstæða á miðvikudag. Þar sást forsetinn í Hvíta húsinu þar sem hann tekur vanalega á móti erlendum erindrekum með bandaríska fánann og fána forsetaembættisins í bakgrunni láta höggin dynja á bandaríska kosningakerfinu og lýðræði með ósannindum, að sögn Washington Post. Lýsti Trump ræðunni sem mögulega þeirri mikilvægustu sem hann hefði nokkru sinni flutt.
„Úrslitum þessara kosninga var hagrætt. Allir vita það,“ sagði Trump ranglega.
Krefst aðgerða af hálfu Hæstaréttar
Hélt forsetinn því fram að „spillt öfl“ hefðu fyllt kjörkassa með fölsuðum atkvæðum. Svikin væru svo stórfelld að umfang þeirra væri fordæmalaust.
Krafðist hann þess að Hæstiréttur Bandaríkjanna, þar sem hann hefur skipað þrjá af níu dómurum, „gerði það sem er rétt fyrir landið okkar“, það er að ógilda hundruð þúsunda atkvæða bandarískra kjósenda þannig að „Ég vinni auðveldlega í öllum ríkjum“.
Spurningarnar sem Washington Post spurði þingmennina, ýmist í símtali eða tölvupósti, voru þrjár. Hver vann kosningarnar? Styður þú eða mótmælir þú tilraunum Trump til að halda fram sigri? Ef Biden fær meirihluta í kjörmannaráðinu, munt þú viðurkenna hann sem löglega kjörinn forseta?

Aðeins brot af þingmönnum flokksins svöruðu fyrirspurnum Washington Post. Þrjátíu þeirra svöruðu síðustu spurningunni játandi, eða fimm fleiri en viðurkenna sigur Bidens í dag.