Enski boltinn

Vill ekki sjá dómarann Lee Mason aftur

Anton Ingi Leifsson skrifar
Nuno Espirito Santo þakar Lee Mason fyrir leikinn í gær.
Nuno Espirito Santo þakar Lee Mason fyrir leikinn í gær. Sam Bagnall/Getty

Nuno Espirito Santo, stjóri Wolves, er ekki hrifinn af dómaranum Lee Mason. Mason dæmdi leik Wolves og Burnley í gærkvöldi sem endaði með 2-1 sigri Burnley.

Fabio Silva minnkaði muninn fyrir Úlfana á 89. mínútu en það var of seint í rassinn gripið eftir að Ashley Barnes og Chris Wood höfðu komið heimamönnum í 2-0.

„Dómarinn hefur ekki gæðin í það að dæma leik í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði sá portúgalski um frammistöðu Lee Mason í leikslok. „Þetta er vandamál sem við vissum því við höfum haft Lee Mason áður.“

„Þetta er ekki um mikilvægar ákvarðanir eða mistök, heldur hvernig hann höndlar leikina. Leikmennirnir verða stressaðir og það verða mikil læti. Hann flautar stundum þegar leikmennirnir eru að öskra.“

„Við erum að tala um bestu keppnina og hann hefur augljóslega ekki gæðin í að dæma. Ég er mjög ósáttur en mér myndi ekki líða vel ef ég myndi ekki segja þetta.“

Nuno sátt ræða við Lee Mason í leikslok og hann var spurður hvað fór þeirra á milli.

„Ég vil ekki sjá hann aftur. Það er það sem ég sagði við hann. Ég vona að hann dæmi ekki leik hjá okkur aftur því það gerist alltaf það sama.“

„Hann getur ekki stjórnað leikmönnunum sem eru stanslaust að kvarta - bæði lið. Í öllum öðrum leikjum er flæði í leiknum og samtöl en hann er ekki tilbúinn í það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×