Að óbreyttu munu miðjusætin í vélum Icelandair vera auð fram undir lok maí. Flugfélagið hefur reynt að forðast að raða í miðjusætin frá upphafi mánaðar af sóttvarnaástæðum til að tryggja aukna fjarlægð milli farþega.
Upplýsingafulltrúi Icelandair segir þó í samtali við Fréttablaðið að fólk geti farið fram á undanþágu, t.a.m. ef fjölskyldur ferðast saman.
Það sé jafnframt lítið mál að framfylgja þessari nýsettu reglu þessa dagana, að sögn upplýsingafulltrúans. Flugfélagið hefur aðeins flogið til og frá Lundunum, Boston og Stokkhólmi á grundvelli samnings við íslenska ríkið sem tryggja á lágmarksflugsamgöngur.
Forstjóri Ryanair fullur efasemda
Fjölmörg flugfélög hafa farið sömu leið og Icelandair. Mörg af stærstu flugfélögum Bandaríkjanna; eins og Delta, Southwest og American Airlines, eru hætt að selja í miðjusætin auk þess sem Wizz Air, Air New Zeland og EasyJet hafa einnig sagst ætla að takmarka sætafjölda í vélum sínum.
Forstjóri Ryanair, Michael O’Leary, gefur þó lítið fyrir þetta úrræði og lýsti því sem „brjálæði“ og „vitleysu“ í samtali við Reuters. Þrátt fyrir autt miðjusæti sé minna en tveggja metra bil milli farþega, bæði í sömu sætaröð og í röðunum fyrir framan og aftan.
Uppfært klukkan 14:30.
Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var sagt að Icelandair væri hætt að selja í miðjusætin. Flugfélagið segir það þó hafa verið ónákvæmt orðalag. Hið rétta er að Icelandair reynir að raða þannig í vélar sínar að ekki sé setið í miðjusætinu. Orðalag fréttarinnar hefur verið lagfært í þá átt.