Erlent

Slapp ó­meiddur frá bana­slysi, birti myndir á Face­book og flúði vett­vang

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá vettvangi slyssins í gær.
Frá vettvangi slyssins í gær. Vísir/AP

Fjórir lögreglumenn létust í umferðarslysi á hraðbraut í grennd við áströlsku borgina Melbourne á miðvikudagskvöld. Ökumaður Porsche-bifreiðar, sem stöðvaður hafði verið vegna ofsaaksturs, flúði vettvang slyssins ómeiddur en tók fyrst myndir af slysinu og birti á samfélagsmiðlum.

Tveir lögreglumannanna stöðvuðu ökumanninn, hinn 41 árs Richard Pusey að því er fram kemur í frétt Guardian, og beindu honum inn á neyðarakrein við hraðbrautina. Tveir lögreglumenn til viðbótar voru svo kallaðir á vettvang til aðstoðar við að gera bifreið Pusey upptæka, eftir að hann sýndi jákvæða niðurstöðu úr fíkniefnaprófi.

Lögreglumennirnir fjórir voru allir komnir út úr bílum sínum og voru við störf þegar stór vörubíll sveigði inn á neyðarakreinina og hafnaði á þeim. Lögreglumennirnir létust allir við áreksturinn, og þá gjöreyðilagðist Porsche-bíllinn, en Pusey og bílstjóri vörubílsins hlutu enga eða minniháttar áverka.

Pusey, sem sagður er eiga umfangsmikinn afbrotaferil að baki, tók myndir af slysinu og birti á Facebook áður en hann flúði vettvang. Myndirnar eru sagðar afar ósmekklegar og lögregla í Viktoríu-fylki hefur hvatt almenning til að dreifa þeim ekki á netinu. Pusey hafði síðar samband við lögreglu og er sagður munu gefa sig fram.

Bílstjóri vörubílsins var fluttur á sjúkrahús og vonast lögregla til að ræða við hann í dag. Þá fékk lögregla heimild til leitar á heimili hans en hann er sagður hafa fengið einhvers konar veikindakast á vettvangi.

Graham Ashton lögreglustjóri í Viktoríufylki sagði slysið hvíla þungt á lögreglu. Aldrei hafa fleiri lögregluþjónar látist í einu við störf í sögu umdæmisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×